Apótekið

Veitingar

Þótt matarverð í Apótekinu á horni Austurstrætis og Pósthússtrætis sé í hæsta flokki, tímir staðurinn ekki að veita gestum faglega þjónustu, heldur ræður fálmkennt fólk af leiklistarskólum og líkamsræktarstöðvum til að pósera með stælum í Armaní-fötum á strigaskóm.

Hér þýðir ekki að biðja um reyklaust borð, því að ekki er tekið mark á lögum og reglugerðum, “það þýðir lítið”. Þú ert settur niður við borð, þar sem hvolft hefur verið úr öskubakkanum og hann skilinn eftir óþveginn á eikarborðplötunni handa næsta gesti.

Staðurinn er vel hannaður og hæfir húsakynnum. Eftir miðju salarins er lágt skilrúm með sófum á báða bóga, litlum borðum og stólum á móti, en við háa glugga eru stærri borð með hefðbundnu sniði. Hátt og hvítt er til lofts og veggja og gott skyggni um stóra glugga til eldhúss og vínskápa.

Þetta er fín stæling á hönnun Conrans á Mezzo við Wardour Street í London, enda er gestagangur mikill. Það er stemning og samfelldur kliður, sem skapar Apótekið, ungir og líflegir gestir af auglýsingastofum og markaðsdeildum, sem tala mikið í gemsa við borðin og hafa lítið vit á mat, en geta slegið um sig með tilvísunum í innantómt slagorð “fusion”-matreiðslu.

Hér kostar 4.200 krónur á mann að borða þríréttað með kaffi á kvöldin, áður en kemur að víni. Þetta er verðlag, sem markaðurinn virðist bera, þótt betri staðir bíði hálftómir eftir gestum. Hagstæðari matseðill er í hádegi og fram til kl. 18:30, þegar hægt er að borða þríréttað með kaffi fyrir 2.210 krónur og tvíréttað með kaffi fyrir 1.810 krónur. Vínlistinn er ágætur og hóflega verðlagður.

Matseðillinn er hvorki spennandi né markviss. Þar er sitt lítið af hverju, frá japönsku sushi yfir í lambahrygg með kantarellu-sveppum og beikon-kartöflum, en heildarsvipurinn er óljós og þemað ekki neitt. Helzti kostur matreiðslunnar er nærfærni í eldunartíma, sem skiptir raunar mestu, en kryddnotkun er stundum kjarklítil.

Góður forréttur var ítalskt blaðsalat með grilluðu grænmeti, paprikusósu og hummus-klatta, vöfðum í salatblöð. Einnig þunnsneidd hörpuskel, nánast hrá, afar meyr og bragðfín með bragðlausum graslauk og djúpsteiktum tómati í deigi. Ennfremur Capri-salat með nokkrum lögum þunnra sneiða af tómati, mozzarella og rochet-salati. Lakari var bragðsterk sjávarréttasúpa með reyktri ýsu, kræklingi og grænmetisþráðum.

Sushi og sashimi staðarins var verksmiðjulegt, gervikrabbi úr surimi, fjórar fisktegundir á hrísgrjónabollum, bragðsterkar og bragðvondar kryddpylsur í hrísgrjónarúllu, allt framleitt löngu fyrir framreiðslu. Lambahryggurinn skartaði rifjum út í loftið og glæsilegum beikonfána og bjó yfir rósrauðu og ágætlega meyru, en bragðdaufu kjöti, sem hvarf í skugga sósu með beikonbragði og bakaðs klatta úr kartöflum og beikoni.

Kartöfluklattar eru vinsælir í eldhúsinu. Blandaður spínati var slíkur klatti undir hæfilega eldaðri en ekki nógu ferskri rauðsprettu steiktri, með miklu af perlulauk og dálitlu af ætiþistlum. Harður kartöfluklatti, var undir graskersmauki, sem fylgdi rósrauðri og seigri andabringu. Betri aðalréttur var afar næmt grillaður lax, með brenndri skorpu og meyr að innan, í för með bragðdaufum þráðum af pasta og grænmeti og svokallaðri austurlenzkri kryddsósu bragðdaufri.

Ýmis ber með múskat-krapís voru borin fram í hafsjó af jarðarberja-dósasafa. Sérstaklega smart voru þrjár tegundir af crème brûlée skorpubúðingi og plómumauk í fjórum litlum skálum. Svokallað espresso-kaffi var bragðdauft, en venjulegt kaffi var nothæft.

Apótekið er einkum fyrsta flokks hönnun og markaðssetning, ímynd og umbúðir fremur en innihald.

Jónas Kristjánsson

DV