Fyrir nokkrum árum virtist mannkynið á leið til betra heims undir forustu Vesturlanda. Heimsveldi Sovétríkjanna og leppríkja þeirra var hrunið til grunna og eftir stóðu lýðræði, markaðsbúskapur og velferðarstefna sem algild markmið mannkyns. Mannkynssagan er á enda, sögðu fræðimenn.
Menn gældu meira að segja við þá hugmynd, að lýðræðisríki heimsins mundu bindast samtökum á borð við Evrópusambandið, veita hvert öðru aðgang að fjármagni, markaði, velferð og pólitískum stuðningi. Velgengni þessa hóps mundi soga að sér önnur ríki og harðstjórnir mundu hrynja um allan heim.
Þetta fór ekki svo. Margt hefur bilað í hinni vestrænu heimsmynd. Fáokun markaðsrisa hefur haldið innreið sína. Hér á landi skipta litlir risar með sér markaði og erlendis etja stærri risar til kapps við þjóðríki um völd og áhrif.
Hnattvæðingin sýnir dökkar hliðar, þar á meðal græðgisvæðinguna, sem við þekkjum við hér, allt frá forsætisráðherra yfir í bankastjóra. Í nokkur ár hafa dæmi um óheyrilega græðgi erlendra stórfyrirtækja komið í ljós í dómsmálum. Mikið vill ekki bara meira, heldur margfalt meira.
Efling þjóðarhags fer í flestum vestrænum ríkjum eingöngu í vasa hinna gráðugu. Í Bandaríkjunum versnar hagur millistétta og hinir fátæku komast á vonarvöld. Víðast á Vesturlöndum er byrjað að saxa niður velferð. Almenningur hættir senn að hafa hag af viðgangi vestræns hagkerfis.
Hræsnin tengir græðgina við völdin. Lengst hefur þetta gengið í bandarískri pólitík, þar sem menn þykjast vera andstæðan við það, sem þeir eru. Undir fölskum flöggum rústa bandarísk yfirvöld umhverfinu, samstarfi við vestræn ríki og fjölþjóðastofnanir og efna til átaka við þriðja heiminn.
Undir yfirskini baráttu gegn hryðjuverkum á Vesturlöndum og gereyðingarvopnum í höndum harðstjóra, var háð mannskætt stríð við Írak, þar sem þúsundir óbreyttra borgara létu lífið. Þar í landi voru hvorki nein gereyðingarvopn né nein miðstöð Al Kaída eða annarra slíkra samtaka gegn vestrinu.
Vaxandi ofbeldi hangir á sömu spýtu og vaxandi græðgi og hræsni í heiminum, einkum af hálfu Vesturlanda og allra mest af hálfu Bandaríkjanna, þar sem komið hafa til sögunnar ráðamenn, er flétta ofbeldi, græðgi og hræsni saman við trúarofstæki og róttæka hægri stefnu stéttaskiptingar.
Yfirstéttin hefur öðlazt aukna tækni við að villa um fyrir fólki og slá skjaldborg margslunginnar hræsni um hagsmuni sína. 2003 var árið, þegar hin illu öfl ofbeldis og græðgi, hræsni, trúarofstækis og stéttaskiptingar komust á flug vestan hafs, mögnuðust í Evrópu og brennimerktu Ísland.
Jónas Kristjánsson
DV