Ár voldugra afla

Greinar

Náttúruöflin eru ekki síður voldug en máttur mannkyns til eyðingar umhverfisins. Strendur heimsins eru orðnar svo þéttbýlar, að tugþúsundir liggja í valnum eftir flóð af völdum jarðskjálfta. Á sama tíma eru mannanna verk að leiða til hækkunar á yfirborði sjávar í kjölfar jöklabráðnunar.

Hér á Íslandi ber okkur skylda til að taka þátt í að hjálpa þeim, sem eiga um sárt að binda vegna flóðbylgjunnar í Indlandshafi. Það er hluti af siðferðilegum skuldbindingum okkar gagnvart mannkyninu í heild. Af sömu ástæðu þurfum við stöðugt að eiga aðild að föstu hjálparstarfi í Afríku.

Hins vegar eigum við ekki að taka í mál að taka þátt í að hreinsa til eftir hernað og ofbeldi Bandaríkjamanna sums staðar í þriðja heiminum. Þeir verða sjálfir að hreinsa til eftir sig, til dæmis í Falluja, sem þeir hafa jafnað við jörðu. Við höfum nægum verkefnum að sinna annars staðar.

Frétt ársins er, að þátttaka Íslendinga í ofstæki og grimmd Bandaríkjamanna er orðin öllum ljós. Okkar menn eru farnir að leika hermenn í Afganistan með fyrirsjáanlegum afleiðingum. Núverandi forsætisráðherra er eini vestræni stjórnmálamaðurinn, sem segir, að Íraksstríðið gangi vel.

Maður ársins er Osama bin Laden, fyrir að vera enn á lífi, fyrir að hafa hrakið Bandaríkjaher frá Sádi-Arabíu, fyrir að hafa einangrað Bandaríkin í heiminum og fyrir að hafa breytt þjóðskipulagi Bandaríkjanna í eins flokks fasisma. Það er ekki lítið afrek eins manns í einu af staðföstu ríkjunum.

Álfa ársins er hins vegar Evrópa, sem höktir leiðina fram eftir vegi með nýjan gjaldmiðil, sem er að ýta fárveikum dollar til hliðar sem heimsmynt, sem er búin að setja sér góða stjórnarskrá í anda félagslegs markaðsbúskapar, sem er búin að taka inn tíu ríki Austur-Evrópu af löngum biðlista.

Náin framtíð mannkyns mun í auknum mæli einkennast af spennu milli Evrópu, sem hefur valið sér félagslegan markaðsbúskap, og Bandaríkjanna, sem hafa valið sér stefnu dólgaauðvalds. Í þessari baráttu mun sú stefna hafa betur, sem hefur ekki peninginn í öndvegi, heldur manninn, reisn hans og drauma.

Á þessu ári hefur Ísland færst örlítið í átt frá Evrópu til Bandaríkjanna með stefnu hinna þúsund sára, sem velferðinni hafa verið veitt. Ríkisstjórnin og atkvæðavélar hennar á þingi hafa fjarlægzt ókeypis skólavist og heilsugæzlu, ofsótt öryrkja og breytt skattalögum í þágu hinna ríku.

Þetta er líka árið, þegar Íslandsgreifinn kom frænda sínum og berserki sínum í Hæstarétt, reyndi að koma upp sértækum fjölmiðlalögum og heimsótti glæpamanninn Kuchma í Úkraínu.

Jónas Kristjánsson

DV