Arafat viðurkenndur í dag

Greinar

Heimsókn Steingríms Hermannssonar forsætisráðherra til Jasser Arafat, forsætisráðherra útlagastjórnar Palestínumanna í Túnis, bætir fyrir hvimleiða framgöngu Jóns Baldvins Hannibalssonar utanríkisráðherra í garð hinnar ofsóttu þjóðar Arafats í landinu helga.

Heimsókn Steingríms til Arafats bætir líka fyrir hvimleiða heimsókn Þorsteins Pálssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, til hryðjuverkaliðs, sem ræður ríkjum í Ísrael. Íslenzkir stjórnmálamenn eiga ekkert erindi í opinberar heimsóknir til hryðjuverkaríkja.

Enginn vafi leikur á, að Jasser Arafat er réttur fulltrúi Palestínumanna og mundi verða staðfestur sem slíkur, ef Palestínumenn fengju að kjósa sér foringja. Eina andstaðan við hann er frá hópum róttækari Palestínumanna og hópum íslamskra trúarofstækismanna.

Ef við lítum á Ísrael og Palestínu mörg ár aftur í tímann, er ekki hægt að sjá, að Jasser Arafat og stuðningsmenn hans hafi staðið fyrir neinum hryðjuverkum. Hins vegar hafa stjórnvöld í Ísrael á þessum tíma staðið fyrir óhugnanlegum hryðjuverkum í Palestínu.

Þetta hefur allt saman komið fram í fréttum og er stutt rannsóknum alþjóðasamtaka á borð við Amnesty, sem hafa harðlega gagnrýnt framgöngu Ísraelsmanna í Palestínu, er minnir mjög á framgöngu Gestapó í hernumdum löndum síðari heimsstyrjaldarinnar.

Í rauninni er undarlegt, að lýðræðisríki á borð við Ísland skuli halda uppi stjórnmálasambandi við glæparíki, en neita að taka upp stjórnmálasamband við útlagastjórn þjóðar, sem glæparíkið ofsækir. Stefna utanríkisráðherra okkar er hreint og beint ósiðleg.

Það er líka kynlegt, að utanríkisráðherra okkar skuli hvað eftir annað stilla Íslandi upp með Ísrael og Bandaríkjunum í einangruðum hópi ríkja, er greiðir atkvæði á alþjóðlegum vettvangi, svo sem hjá Sameinuðu þjóðunum, gegn réttlátu almenningsáliti á Vesturlöndum.

Þáttur Bandaríkjanna er afar slæmur. Þaðan koma peningarnir, sem halda Ísrael á floti. Og þaðan kemur stuðningurinn, sem gerir Ísrael kleift að hafa stjórnmálasamband við umheiminn. Samt hafa Bandaríkin ekki nein minnstu áhrif á gerðir valdhafa Ísraels.

Samskipti Ísraels og Bandaríkjanna eru á þann veg, að rófan dillar hundinum. Þessi andlega herleiðing Bandaríkjanna í þjónustu Ísraels hefur verið þeim og Vesturlöndum dýr í margs konar alþjóðlegri skák. Hún hefur krumpað og skælt utanríkisstefnu Bandaríkjanna.

Íslendingar hafa löngum talið sig eiga eitthvað í Ísrael vegna aðstoðar okkar sendifulltrúa við að koma ríkinu á fót og vegna gagnkvæmra heimsókna forsætisráðherra fyrr á árum. En þá var Ísrael annað ríki með öðru almenningsáliti og öðrum leiðtogum en nú eru.

Ísrael hefur afmyndazt eins og Hitlers-Þýzkaland á sínum tíma. Þjóðin hefur endurkosið hryðjuverkamennina, sem eru við völd. Krataflokkurinn, sem áður var manneskjulegur, dregur vaxandi dám af hryðjuverkabandalagi Likud. Og Herzog forseti náðar morðingjana.

Ísrael er ekki eina ríki heimsins, sem brýtur mannréttindi. En það er í hópi hinna verstu. Það er til dæmis mun illskeyttara en Sovétríkin og fólskulegra en mörg Arabaríki, svo sem hið siðmenntaða Egyptaland, sem Steingrímur Hermannsson var að sækja heim.

Í þessari stöðu er til bóta, að forsætisráðherra okkar skuli fara til Egyptalands og taka í dag á sig krók til að viðurkenna Arafat óformlega sem leiðtoga Palestínu.

Jónas Kristjánsson

DV