Árangur er takmarkaður.

Greinar

Eftir velheppnaða leiftursókn gegn verðbólgu og lífskjörum er ástæða til að óttast, að hin nýja ríkisstjórn hafi ekki kjark til að ráðast af sama krafti gegn ýmsum óvættum í vegi endurnýjaðrar hagþróunar í landinu.

Nokkuð er til í því, sem Ásmundur Stefánsson hjá Alþýðusambandinu hefur sagt, að ríkisstjórnin hafi raunar ekki gert annað en að ráðast gegn kaupi almennings. Altjend er ljóst, að hún hefur gert það af miklum krafti.

Snúið hefur verið við þróun síðustu þrettán ára, þegar kaupmáttur jókst umfram aukningu þjóðartekna og safnað var til skulda í útlöndum til að kosta umframeyðsluna. Þessi falski kaupmáttur hefur verið tekinn aftur.

Á einu sviði til viðbótar hefur ríkisstjórnin látið til sín taka. Hún hefur lagað ýmsar gjaldeyrisreglur í átt til þess, sem tíðkast í nágrannalöndunum. Fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra hafa sýnt lofsvert framtak.

Lagt hefur verið niður hið tvöfalda gengi krónunnar, sem fólst í sérstöku álagi á ferðamannagjaldeyri. Bönkum og sparisjóðum hafa almennt verið heimiluð gjaldeyrisviðskipti. Og nú er krónan orðin skiptifrjáls í útlöndum.

Allt er þetta til bóta. Og ástandið mundi batna enn frekar, ef þetta nýja frelsi næði einnig til fjármagnshreyfinga og ef heimilað yrði að gera viðskiptasamninga innanlands í erlendri mynt. Þá yrði erfitt að endurreisa verðbólguna.

Á öðrum sviðum fer lítið fyrir afrekum ríkisstjórnarinnar, enda hefur hún ekki setið lengi að völdum. Eftir helgina verður lagt fram frumvarp til fjárlaga og áætlun um lántökur, sem fela í sér takmarkaðan árangur.

Hið jákvæða í þessum plöggum er, að þau gera ráð fyrir stöðvun hinnar árvissu útþenslu ríkisbáknsins á kostnað launafólks og atvinnuvega. Þessi útþensla varð óbærileg, þegar þjóðartekjur byrjuðu að dragast saman á síðasta ári.

Að vísu er aldrei fyllilega að marka áætlanir af þessu tagi. Það er til dæmis alveg sama, hverju ráðgert er að sóa í landbúnað, – sukkið fer alltaf langt upp fyrir mörkin, einnig eftir tilkomu þessarar ríkisstjórnar.

Samanlagt gera fjárlagafrumvarpið og lánsfjáráætlunin ráð fyrir, að Ísland taki ekki erlend lán fyrir vöxtum af fyrri erlendum lánum og ekki hærri erlend lán en sem svarar afborgunum af fyrri erlendum lánum.

Allt er þetta árangur, en takmarkaður árangur. Það er út af fyrir sig gott að geta stöðvað öfugþróunina, en þá hefði verið enn betra að snúa henni við. Vonandi tekst það í hliðstæðum plöggum, sem verða lögð fram að ári.

Leiftursóknin gegn verðbólgu og lífskjörum verður ekki að leiftursókn fyrir atvinnuuppbyggingu og endurreistum lífskjörum í kjölfarið, nema hið opinbera hætti að vernda úrelta starfsemi gegn innreið nýrrar.

Í staðinn þarf að beina starfskröftum þjóðarinnar frá tilgangslausri iðju á borð við sauðfjárrækt og mjólkurbúskap og að framtíðargreinum á borð við laxarækt og örtölvutækni. Og togurunum þarf að fækka hið bráðasta.

Í frumvörpunum tveimur felst nokkur niðurskurður á sóun fjármagns hins opinbera í sjálfvirka sjóði vonlausrar fjárfestingar. En í stórum dráttum er þó enn í gildi peningaforgangur hefðbundinnar vitleysu á borð við kýr og kindur.

Jónas Kristjánsson.

DV