Bandarískt spakmæli segir, að menn eigi að tala mjúkum barka og bera digra kylfu. Gamlir stuðnings menn Reagans Bandaríkjaforseta hafa í vaxandi mæli kvartað um, að hann sneri þessu við, talaði digrum barka og bæri mjúka kylfu.
Með árásunum á Líbýu hefur hann reynt að sýna Bandaríkjamönnum, að hann bæri digra kylfu, þrátt fyrir allt. Árangurinn, sem hann hefur náð, er allur á heimamarkaði, vinsældir heima fyrir. Hryðjuverkum í heiminum mun hins vegar ekki linna, nema síður sé.
Staða Reagans annars staðar í heiminum væri betri, ef menn hans hefðu ekki klúðrað árásunum. Fáir gráta, þótt hryðjuverkamönnum fækki nokkuð og búnaði þeirra sé spillt. Annað mál er að missa sprengjur á heimili fólks, sem ekkert hefur með hryðjuverk að gera.
Með því að varpa sprengjum á óbreytta borgara, sem vita ekki hvaðan á sig stendur veðrið, er Bandaríkjastjórn að lýsa því yfir, að hún sé sama eðlis og stjórn Kadaffis í Líbýu og raunar engu betri. Hún hefur tekið upp sömu vinnubrögð og Kaddafi, óhreinkað sig.
Þegar lýðræðisstjórnir taka upp vinnubrögð hryðjuverkastjórna eru þær að lýsa því yfir, að vinnubrögð lýðræðisstjórna hafi vikið fyrir vinnubrögðum hryðju verkastjórna. Það er sigur hryðjuverkasinna, sigur Kaddafis, en ósigur lýðræðissinna, ósigur Reagans.
Staða Kaddafis mun óhjákvæmilega styrkjast í Líbýu. Þjóðin mun vafalaust fylkja sér um hann og hryðjuverkastefnu hans. Hún mun telja hann vera Davíð gegn Golíat. Árásirnar hafa gert hann að þjóðhetju og barnsmissirinn hefur gert hann að píslarvotti.
Kaddafi mun nú leggja stóraukna áherzlu á hryðjuverk á Vesturlöndum, einkum gegn bandarískum hagsmunum. Hins vegar er hann stórlega ofmetinn sem hryðjuverkamaður. Í raun er hann mestur í munninum, en hinir hættulegu stjórnendur hryðjuverka eru aðrir.
Stjórnir Sýrlands og Íran og hópar Líbanonsmanna og Palestínumanna eru mikilvirkari hryðjuverkamenn en Kaddafi. Munurinn á honum og Assad Sýrlandsforseta er, að Kaddafi talar digrum barka og ber mjúka kylfu, en Assad talar mjúkum barka og ber digra kylfu.
Bandaríkjastjórn hefur slæma reynslu af að eiga við Assad og flúði raunar með her sinn undan honum frá Líbanon í hittifyrra. Hún hefur látið sig hafa það að þakka honum fyrir milligöngu um frelsun gísla, sem teknir voru á hans vegum og alls ekki á vegum Kaddafis.
Hins vegar er Kaddafi þægilegri andstæðingur. Hann er af flestum talinn því sem næst geðveikur og stjórnar litlu ríki, sem er tiltölulega langt frá Sovétríkjunum. Þess vegna hefur Kaddafi verið kennt um fleiri hryðjuverk en hann á skilið, en aðrir látnir í friði.
Kaddafi mun ekki sjálfur geta hefnt sín mikið í hryðjuverkum. Hann verður að fá lánaða menn á vegum Assads Sýrlandsforseta. Sá mun feginn koma illu af stað og láta kenna Kaddafi um hryðjuverkin, meðan hann sjálfur situr á friðarstóli og lætur þakka sér milligöngu.
Árásirnar hafa skaðað sambúð Bandaríkjastjórnar við vinveittar ríkisstjórnir í löndum Araba og einnig við stjórnir Vestur-Evrópu. Líklegt er þó, að skaðinn verði ekki varanlegur, ef Líbýustríðið fer að kólna.
Sovétstjórnin mun gera sér sem mestan pólitískan mat úr klúðri árásanna á Líbýu. En hún er lífsreynd og lætur ofmetið smáríki í Afríku ekki spilla heildarhagsmunum sínum. Því er heimsfriðurinn ekki í hættu.
Jónas Kristjánsson
DV