Árás á velferð

Greinar

Mikill var fögnuður eina þingmannsins, sem opinberlega er andvígur velferðarkerfinu, Péturs Blöndal, sem telur farsælast, að hver sé sinnar gæfu smiður og höndli sjálfur sína peninga. Skattalækkunin dregur úr getu ríkisins til að reka velferðina. Því varð þingmaðurinn óvenjulega kátur.

Þótt skattalækkunin hafi verið milduð með því að hækka skattleysismörk og spýta aurum í barnabætur, varð fyrsti þingmaður einstaklingsfrelsisins afar hamingjusamur. Það segir okkur, að nettóniðurstaða frumvarpsins er meira frelsi einstaklingsins og minni velferð af hálfu Stóra bróður.

Við þurfum ekki að deila um, hvert frumvarpið stefni. Um Það hefur Pétur Blöndal sagt allt, sem segja þarf. Frumvarpið leiðir til, að þeir, sem meira bera úr býtum, þurfa minna að leggja af mörkum. Velferðarkerfið verður því veikara en það hefði ella orðið. Frumvarpið er bein árás á velferðina.

Skattar eru ekki rétta aðferðin til að dreifa lífsgæðum eða öryggi þjóðfélagsins. Jafnaðarstefna á miklu fremar heima í dreifingu fjár, þjónustu, sem ríkið veitir fólki,án þess að krefjast endurgjalds. Skattkerfið á hins vegar að vera flatt og jafnt, gera öllum kleift að leggja sitt af mörkum.

Skattprósenta er bezt ein á alla línuna, til dæmis 20% á háar og lágar tekjur, á launatekjur og fjármagns- og eignatekjur. Frumvarpið stefnir ekki í þá átt, því að það hækkar skattleysismörk og það jafnar ekki bilið milli launatekjuskatts og fjármagnstekju- og eignatekjuskatts.

Vissulega er eðlilegt að leggja niður eignaskatt. En ekki er heiðarlegt að láta við það eitt sitja. Samfélagið þarf að geta skattlagt tekjur af eignum á sama hátt og það leggur skatt á vinnu. Það gengur ekki, að misjafnt mat sé lagt á afraksturinn, hvort hann stafar af vinnu, eignum eða fé.

Heiðarlegt væri líka að jafna virðisaukaskattinn, þótt það þýddi, að svokallaður matarskattur verði hækkaður upp í annan virðisaukaskatt. Hitt er svo nauðsynlegt í leiðinni að efla velferðina með því að bæta stöðu þeirra, sem halloka hafa farið vegna örorku, ómegðar, elli eða atvinnumissis.

Aldrei má líta á skatta eina sér án tillits til kerfisins, sem þeim er ætlað að standa undir. Jafna má skatta, svo sem með því að hafa þá 20% alls staðar, í vaski, tekjuskatti á laun og tekjuskatti á fjármagn og eignir. En ekki má lækka skatta í heild, af því að þá bilar velferðin enn frekar.

Ríkisstjórnin leggur fram skattalækkunarfrumvarp til að geta dregið enn meira úr velferðinni en hún hefur áður gert. Þótt þættir málsins séu til bóta, er frumvarpið vont í heildina.

Jónas Kristjánsson

DV