Árátta gegn athvarfinu

Greinar

Kvennaathvarf á að vera dæmigert verkefni sveitarstjórna, liður í hinu umfangsmikla félagsmálastarfi, sem þær stunda. Þess vegna er sérkennilegt, hversu lítið athvarf Kvennaathvarfið í Reykjavík hefur hjá meirihluta Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn.

Borgin ver milljónum í félagslega aðstoð, meðal annars til að halda uppi tugum róna. Hún hefur hins vegar ekki haft neitt framtak til að reka kvennaathvarf fyrir fórnardýr þessara róna sinna. Það hefur orðið hlutverk sjálfboðaliða meðal borgarbúa.

Meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur hefur með semingi kastað ruðum til Kvennaathvarfsins í Reykjavík. Í ár er upphæðin hin sama í krónugildi og hún var í fyrra, 625 þúsund krónur. Það er í raunverulegum verðmætum töluverð lækkun milli áranna.

Þar á ofan koma þessir peningar seint og illa frá borginni. Borgarstjóri og forseti borgarstjórnar svara með hálfgerðum skætingi, ef aðstandendur Kvennaathvarfsins, fjölmiðlar eða fulltrúar minnihlutans í borgarstjórn spyrja, hverju þetta sæti.

Það er eins og forustumenn Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík þurfi að gera sér upp karlrembu, væntanlega fyrir hönd flokksins. Áráttan gegn athvarfinu verður ekki skýrð nema með einhverjum slíkum hætti. Hún er ekki ómeðvituð, heldur meðvituð.

Spurning er, hvort hinar fáu konur, sem taka þátt í meirihluta borgarstjórnar, hafa mátt eða vilja til að vinda ofan af hinni einkennilegu hegðun ráðamanna meirihlutans, er taka rónana sína langt fram yfir konur, sem þurfa tímabundið athvarf.

Ekki er þó sanngjarnt, að borgin ein standi undir kostnaði við athvarfið í borginni. 40% kvennanna koma frá öðrum sveitarfélögum. Þau hafa fæst tekið þátt í skyldu sinni á þessu sviði. Hafnarfjörður, Garðabær og Selfoss hafa þó lagt fram nokkurt fé.

Merkasta undantekningin er Kópavogur, sem hefur stutt athvarfið myndarlegar en önnur sveitarfélög. Miðað við höfðatölu er framlag Kópavogs langtum hærra en framlag Reykjavíkur. Ef til Í reynd hefur það svo verið ríkið sjálft, sem hefur lagt langsamlega mest af mörkum, tvær milljónir á fjárlögum þessa árs. Þar með komast heildarframlög opinberra aðila til athvarfsins upp undir þrjár milljónir króna, ­ekki mikið, miðað við reksturinn.

Það kostar mikið að reka athvarf, sem hefur í einu hýst mest 29 konur og börn yfir nótt, ­sem hýsti í fyrra 145 konur og 106 börn. Margt af þessu fólki er ekki aðeins blátt og marið, heldur gersamlega peningalaust og getur því engin daggjöld borgað.

Kvennaathvarfið er í vandræðum með að greiða laun starfsfólks. Það er í vandræðum með að greiða afborganir af sjálfu húsnæðinu. Það hefur lengi ekkert viðhald getað greitt, svo að húsið heldur ekki vatni eða vindum. Heilbrigðiseftirlitið kann að loka því senn.

Athvarfið hefur notið velvildar einstaklinga, sem hafa gefið því fé og hvert einasta húsgagn, sem í húsinu er; ennfremur fyrirtækja, sem hafa látið peninga af hendi. Rekstrarþörfin er hins vegar svo mikil, að meira þarf til, einkum myndarlegri aðstoð Reykjavíkurborgar.

Það er misskilningur ráðamanna Reykjavíkur, ef þeir telja sig verða stærri karla ­í augum annarra en rónanna sinna­ fyrir að sýna óbeit á athvarfinu.

Jónas Kristjánsson

DV