Árbær í Atlantshafi

Greinar

Við höfum svigrúm til að mæta aflarýrnun í sjávarútvegi og öðrum erfiðleikum, sem steðja að efnahag og fjárhag þjóðarinnar um þessar mundir. Við þurfum bara að sætta okkur við tilhugsunina um, að sviptingar af slíku tagi kosta töluverða röskun á búsetu og atvinnu.

Þar sem fiskveiðar eru í eldlínu þessara vandræða, er ljóst, að ekki verður unnt að leggja á þær meiri byrðar næstu árin. Þvert á móti verður að gera þeim kleift að laga sig að þrengri aðstæðum. Til dæmis geta þær ekki lengur staðið undir núverandi smábyggðastefnu.

Treysta má stöðu fiskveiða með því að lina hömlur á útflutningi á ferskfiski. Nú er reynt að halda slíkum útflutningi í skefjum með skömmtun leyfa og með refsifrádrætti á veiðikvóta. Þetta stríðir gegn efnahagslögmálinu um mestan afrakstur af minnstri fyrirhöfn.

Ennfremur má auka framleiðni í fiskveiðum með því að fækka skipum. Það gerist á sjálfvirkan hátt með því að draga úr hömlum á sölu aflakvóta, svo að útgerðir, skipstjórnarmenn og sjómenn geti keypt nægan kvóta til að gera út beztu skipin, en öðrum sé lagt.

Með útflutningsfrelsi og kvótasölufrelsi er tiltölulega auðvelt að búa til heilbrigðan ramma utan um fiskveiðar. Ekki þarf peninga úr vösum skattgreiðenda, heldur bara afnema nokkrar reglur, sem hamla gegn, að við getum notað okkur breytta tækni og viðskiptahætti.

Erfiðara verður að eiga við fiskvinnsluna, því að umtalsverður hluti hennar er orðinn óþarfur. Sumpart er frystingin að flytjast út á sjó, sumpart að leggjast niður og sumpart að færast yfir í neytendaumbúðir. Óhjákvæmilegt er, að þessu fylgi mikil röskun.

Hingað til hefur það verið opinber ríkistrú og þjóðartrú, að búseta og atvinnuhættir skyldu vera í einhverju fyrra ástandi, eins konar Árbæjarsafn í Atlantshafi. Efnahagsvandræði þjóðarinnar stafa miklu meira af þessum trúarbrögðum en af samdrætti í þorskafla.

Í niðurgreiðslum, uppbótum, styrkjum og innflutningsbanni eru brenndir 15-20 milljarðar króna á ári í landbúnaði. Á síðustu árum hafa slíkar aðgerðir skotið rótum í sjávarútvegi og munu hafa hliðstæða bölvun í för með sér, ef ekki verður gripið strax í taumana.

Smábyggðastefna er hornsteinn trúarbragðanna. Í krafti hennar hefur verið raðað á ströndina hafnarmannvirkjum og vinnslustöðvum, sem nýtast ekki nema að litlum hluta. Þessi sjávarpláss, vinnslustöðvar þeirra og þjónustufyrirtæki ramba nú á barmi gjaldþrots.

Engir peningar eru til að leysa þennan vanda. Tímabili stjórnlausrar skuldasöfnunar er lokið. Til málamynda verður slett nokkrum hundruðum milljóna hér og þar, svo sem í fiskeldi og loðnubræðslur, en vandræðin munu samt aukast. Aðstoðin verður til einskis.

Þjóðin verður að horfast í augu við, að Ísland er ekkert Árbæjarsafn, sem hægt er að frysta í einhverju fyrra ástandi. Búseta og atvinnuhættir verða að fá að raskast með eðlilegum hætti, svo að við getum fylgt öðrum þjóðum eftir á vegi þeirra til velmegunar og farsældar.

Svo vel vill til, að hugljómun á þessu sviði býr yfir tvöföldum ávinningi. Annars vegar sparar hún stórfé og hindrar skuldasöfnun og skattahækkun. Hins vegar gerir hún sjávarútveginn í heild og aðra mikilvæga atvinnuvegi færa um að lifa góðu lífi í nýju umhverfi.

Öll efnahagsvandræði líðandi stundar munu hverfa eins og dögg fyrir sólu, ef þjóðin og valdið sætta sig við, að röskun sé ekki bara nauðsynleg, heldur líka æskileg.

Jónas Kristjánsson

DV