Arðlítið skólakerfi.

Greinar

Skólakerfi okkar er afar dýrt fyrirbæri. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir, að það kosti ríkið eitt tæplega 4400 milljónir króna á næsta ári. Það eru um 13% allra útgjalda þess. Til viðbótar kemur svo töluverður kostnaður sveitarfélaga og heimila.

Auk kostnaðarins er margvísleg fyrirhöfn fylgjandi kerfinu. Margir skólamenn sinna mun meiru en lágmarksskyldum. Þeir sækja námskeið og ráðstefnur, sem miða að betri kennslu og hæfara skólastarfi. Þeir hafa áhuga á fleiru en að fá launin bætt.

Samt er einkennilegt, að skólamenn virðast vera ánægðir með, að skólakerfið sé sex til átta ár að kenna börnum að lesa, skrifa og reikna. Ef tekið er tillit til kostnaðarins og fyrirhafnarinnar, hlýtur útkoman að fela í sér afar litla arðsemi.

Framleiðslugeta kerfisins er svo lítil, að margir ljúka háskólaprófum eftir sautján ár eða lengri tíma án þess að kunna að skrifa. Hafa þó skrifleg próf verið ein helzta atvinna þeirra öll þessi ár. Skólamenn fjalla of lítið um slíkan vanda.

Skólarnir eru í raun fyrst og fremst geymslur fyrir börn og unglinga. Þeir gera foreldrum kleift að losna við börnin til að geta dregið tvenn laun í búið. Það er mikilvægt hlutverk, úr því að þjóðfélagið krefst tveggja manna vinnu af hverri fjölskyldu.

En skólarnir eru allt of dýrir, ef aðallega er litið á þá sem geymslustofnun. Slíka þjónustu hlýtur að vera hægt að veita á ódýrari hátt. Þar að auki sinna þeir þessu hlutverki afar illa. Þeir bjóða ekki einu sinni samfelldan skólatíma og aðstöðu til heimanáms.

Skólakerfið virðist ekki í stakk búið til að sinna á sæmilegan hátt öðrum en þeim, sem eru á meðaltalsróli. Þeir, sem meira eða minna geta, fá sjaldnast eftirtekt við hæfi. Í mörgum tilvikum er skyldunámið gagnslaust og jafnvel skaðlegt slíkum nemendum.

Öldungadeildirnar eru skörp andstæða annarra þátta skólakerfisins. Þar er arðsemin mikil. Þangað kemur fólk ekki af skyldu eða vana, heldur af áhuga. Það sefur ekki í tímum, heldur tekur námið með áhlaupi. Það hefur sjálft frumkvæði að náminu, sem það stundar.

Skólamenn ræða lítið um, hvort skólaskylda – sem skylda barna til að vera í skóla – eigi ekki að víkja fyrir fræðsluskyldu – sem skyldu kerfisins til að veita fræðslu þeim, sem þess óska. Frumkvæðið veitir meiri arðsemi en skyldan í grunnskólum og vaninn í framhaldsskólum.

Skólamenn ræða enn minna um, hvort opnir skólar, sem beita nútímatækni útvarps og sjónvarps, myndbanda og tölvudisklinga, eigi ekki að leysa hina hefð- bundnu, lokuðu skóla af hólmi. Þeir minnast raunar ekki á slíka skóla, hafa líklega ekki nægan áhuga.

Í gamla daga lærðu börn að lesa, skrifa og reikna á skömmum tíma í heimahúsum eða farskólum. Í nútímanum lærir starfandi fólk að ráða betur við verkefni sín með því að sækja námskeið í stuttan tíma, með heimanámi eða með hvoru tveggja.

Slík arðsemi sést ekki í skólakerfinu. Þar situr fólk af skyldu eða vana og lætur sér leiðast. Þar er hangsað eins og í unglingavinnunni. Merkilegt er, hvað lítið er fjallað um þetta arðleysi af annars ráðstefnu- og námstefnuglöðum skólamönnum.

Of mikið er að verja 13% ríkissjóðs til úrelts skólakerfis, sem ekki getur horfzt í augu við annmarka sína.

Jónas Kristjánsson

DV