Arðsamir sendiherrar

Greinar

Heimsleikar íslenzka hestsins eru haldnir með vaxandi glæsibrag í hverju Evrópulandinu á fætur öðru, nú síðast í Hollandi. Skipulagðar hestaferðir með útlendinga um landið eru komnar upp í fjórar vikur að lengd. Vel yfir 2000 reiðhestar eru seldir árlega til útlanda.

Íslenzku knaparnir á verðlaunapöllum heimsleikanna eru aðeins broddurinn af fjölmennri stétt atvinnumanna í hestamennsku. Ræktun, uppeldi, tamningar, járningar, lækningar og verzlun með hesta og hey eru komin í hóp litlu vaxtarbroddanna í grasrót atvinnulífsins.

Þetta hefur meira eða minna gerzt án forsjár eða frumkvæðis ríkisins, svo sem vera ber. Ekkert átaksverkefni hefur leikið naut í flagi. Engar atvinnubótanefndir eða byggðastofnanir hafa lagt hönd á plóginn. Ríkið skattleggur meira að segja útflutning á hryssum og stóðhestum.

Ekki má heldur gleyma, að mistökin í hrossaræktinni eru söluhæf vara. Hrossakjöt er selt svo dýru verði til Japans, að ríkið þarf ekki að leggja krónu með því. Það hefur hins vegar unnið gegn kjötsölunni með því að hrekja erlend flutningaflugfélög frá Keflavíkurvelli.

Mest er það fyrir frumkvæði Gunnars Bjarnasonar ráðunautar, að þúsundir útlendinga flykkjast milli landa, þegar íslenzkir hestaleikar eru háðir. Hann sáði korninu, sem leiddi til, að enginn atburður á Íslandi kallar á eins marga útlendinga og einmitt landsmót hestamanna.

Hrossastofninn á landinu er meira en nógu stór til að standa undir allri þessari veltu. Hann má minnka um fjórðung eða þriðjung, ef það bezta er skilið eftir. Hann þarf ekki að fela í sér mikið álag á landið, því að nú orðið eru öll hross geymd í heimahögum, ekki á afréttum.

Ofbeit hrossa er nærri eingöngu bundin við afgirt hólf á láglendi. Hún gerist ekki á viðkvæmum uppblástrarsvæðum. Með aukinni samvinnu hestamanna og landverndarstofnana má ná tökum á þessu afmarkaða vandamáli og koma í veg fyrir ör á landinu af þess völdum.

Með aukinni atvinnumennsku í hestaferðum með útlendinga hefur batnað umgengni á reiðleiðum og í áningarstöðum. Víða er nú orðin töluverð umferð af slíku tagi og án þess að land láti á sjá. Með samvinnu atvinnumanna og landverndarstofnana má tryggja þessa þróun.

Aðgerðir Vegagerðarinnar og bænda víða um land hafa dregið úr möguleikum þessarar gjaldeyrisöflunar. Lagðir hafa verið malbiksvegir, sem hestar þola ekki, en gömlu vegirnir grafnir sundur eða girtir kruss og þvers, svo að þeir nýtast ekki sem reiðvegir í staðinn.

Ofan á þetta hefur verið girt fyrir gamlar reiðleiðir, sem njóta þó enn réttinda í lögum. Sums staðar hefur náðst samkomulag um, að ríðandi menn megi fara þær, en ekki reka þar lausa hesta. Þetta takmarkar svigrúm fyrirtækjanna, sem selja útlendingum hestaferðir.

Markvisst þarf að fara að nýta gamla akvegi sem reiðleiðir og opna fornar reiðleiðir, sem ranglega hefur verið lokað í krafti misskilins eignaréttar. Með þessu tvennu má fjölga tækifærum til skipulagðra hestaferða og auka enn þá atvinnu, sem Íslendingar hafa af slíkum ferðum.

Mikil hringrás er í gjaldeyrisöflun hestamennskunnar. Útlendingur kemur hingað í hestaferð. Hann fær ást á hesti og kaupir hann. Hann fer á heimsleika og til Íslands á landsmót hestamanna. Fjölskyldan kaupir fleiri hesta, ættingjar og vinir. Þetta hleður utan á sig.

Það bezta er, að þetta eru ekki hlutlaus viðskipti, heldur tengjast viðskiptavinirnir Íslandi órjúfanlegum tryggðaböndum. Hesturinn er bezti sendiherra landsins.

Jónas Kristjánsson

DV