Arðsemi er mannúðlegri.

Greinar

Fiskiþing, sem nú situr – á kostnað ríkisins – er svo annars hugar í fiskveiðimálum, að menn kvarta þar um ómaklegan áróður gegn fjölda fiskiskipa. Þetta er eitt grófasta dæmi nútímans um menn, sem stinga höfðinu í sandinn.

Allir aðrir, þar á meðal samtök útgerðarmanna og sjávarútvegsráðherra, eru sammála um, að nauðsynlegt sé að fækka fiskiskipum, einkum togurum, og nálgast á þann hátt fyrra jafnvægi afkastagetu og aflamagns flotans.

Þeir, sem skilja þessa nauðsyn, deila hins vegar um, hvernig togurum eigi að fækka. Er þar stillt upp sem andstæðum arðsemisstefnu og svonefndri byggðastefnu, sem er smábyggðastefna. Fer sjávarútvegsráðherra fyrir hinum síðarnefndu.

Arðsemissinnar mundu fremur vilja fækka togurum á Þórshöfn en Akureyri, af því að útgerðin gengur skár á Akureyri. Smábyggðasinnar vilja hins vegar frekar fækka togurum á Akureyri en á Þórshöfn af eins konar mannúðarástæðum.

Smábyggðasinnar segja, að togarinn sé í sumum smáplássum eini hornsteinn atvinnulífsins. Stöðvun hans muni leiða til almenns atvinnuleysis og fólksflótta til þéttbýlis, þar sem tryggari horfur séu á sæmilegri afkomu.

Þeir segja líka, að í þéttbýli sé auðveldara að byggja upp atvinnutækifæri á öðrum sviðum. Sem dæmi hefur verið nefnt, að stækkun álversins í Straumsvík geti komið í stað útgerðar nokkurra togara á Suðurnesjum.

Hin sögulegu sjónarmið gleymast yfirleitt í þessari röksemdafærslu. Til skamms tíma voru togararnir fyrst og fremst einkenni þéttbýlisins, einkum Reykjavíkur, en einnig Akureyrar, Hafnarfjarðar, Ísafjarðar og Akraness.

Litlu plássin eins og Þórshöfn og Hólmavík hafa hins vegar fengið sína togara á allra síðustu árum. Þau hafa því ekki eins mikinn sögulegan rétt til togaraútgerðar og hinir rótgrónu togaraútgerðarbæir þéttbýlisins.

Engin leið er að verja, að óhófskaup á togurum til strjálbýlisstaða eigi að leiða til, að refsað sé tiltölulega traustri togaraútgerð á gömlum merg í þéttbýli. Smábyggðastefnan væri þá komin út yfir allan þjófabálk.

Allir nema Fiskiþing vita, að í um það bil fimm ár hefur sífellt verið bent á, að nýir togarar séu ekki aðeins óþarfir, heldur beinlínis skaðlegir þeirri útgerð, sem fyrir er, svo og gersamlega vonlausir í rekstri.

Þeir, sem hafa keypt slík skip á síðustu fimm árum gegn heilbrigðri skynsemi, hafa réttilega verið kallaðir grínistar, enda hafa þeir ekki miðað við útgerð á fisk, heldur á kerfið, sem veitir ljúfar fyrirgreiðslur.

Þessir grínistar síðustu fimm ára eiga að súpa seyðið af gerðum sínum, enda þótt telja megi kerfið meðábyrgt. En sjávarútvegsráðherrar síðustu ríkisstjórna verða líklega ekki dregnir til ábyrgðar frekar en stjórnmálamenn yfirleitt.

Útgerð grínistanna er gjaldþrota. Þetta ber að viðurkenna á formlegan hátt með viðeigandi uppboðum á skipunum, hvort sem þau eru gerð út í þéttbýli eða strjálbýli. Í sumum tilvikum er unnt að hjálpa mönnum við að hætta.

Ýmsir halda, að svonefnd byggðastefna, sem er smábyggðastefna, sé mannúðlegri en arðsemisstefna. Í því brenglaða mati sjá þeir ekki, að arðsemin ein getur bjargað sjávarútveginum frá ómannúðlegum hörmungum aflakreppunnar.

Jónas Kristjánsson.

DV