Arftakar nasista á ferð.

Greinar

Argentína hefur löngum verið vestrænu lýðræði erfiður biti í hálsi. Í síðari heimsstyrjöldinni veitti hún öxulveldunum óbeinan stuðning. Eftir styrjöldina varð hún griðland illræmdra nasista, sem þar hafa síðan markað djúp spor.

Nasistar kenndu argentínskum herforingjum hinar skefjalausu ofsóknir gegn stjórnmálaandstæðingum. Smám saman urðu nemendurnir kennurunum færari í grimmdinni. Nú er Argentína orðin eitt helzta forusturíki illmennskunnar í heiminum.

Við Argentínu er kennd sú aðferð að smala stjórnmálaandstæðingum upp í flugvélar, fara með þá langt út yfir Atlantshafið og varpa þeim þar lifandi útbyrðis, svo að dánarorsökin verði drukknun, ef svo ólíklega vildi til, að þeir fyndust.

Þannig hafa þúsundir Argentínumanna horfið án tangurs né teturs. Herforingjarnir yppta bara öxlum og segjast hvergi hafa komið nærri. Eins og önnur grimmd hefur þessi aðferð breiðzt út frá Argentínu um aðra hluta Rómönsku Ameríku.

Forustumenn af þessu tagi eru auðvitað ekki gjaldgengir í vestrænu samfélagi, þótt siðblindir menn á borð við Reagan Bandaríkjaforseta virðist halda það. Dapurlegt er að horfa upp á fulltrúa hans viðra sig upp við herforingjana.

Steininn tók þó úr á kvöldi innrásarinnar í Falklandseyjar. Þá sat veizlu argentínskra herforingja annar siðblindinginn til, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, frú Kirkpatrick. Slíkt mega menn ekki gera.

Ekki getur Bandaríkjastjórn samt hrósað sér af miklum áhrifum á herforingjana. Þeir hlupu í skarðið, þegar Bandaríkjamenn hættu að selja Sovétríkjunum korn eftir innrásina í Afganistan. Og nú hafa þeir hótað aðstoð Kremlverja.

Staðreyndin er sú, að illmenni til hægri eiga samleið með illmennum til vinstri. Argentínskir herforingjar eru nú á dögum náttárulegir bandamenn Kremlverja, ekki síður en þeir voru stuðningsmenn Hitlers á sínum tíma.

Bandaríkin og önnur lýðræðisríki eiga hins vegar samleið með argentínskum lýðræðissinnum, sem hugsanlega geta komizt til valda, ef óstjórn herforingjanna rennur út í sandinn við misheppnaða herför til Falklandseyja.

Þorskastríðin eru svo langt að baki, að Íslendingar hafa efni á að viðurkenna, að í máli Falklandseyja slær hjarta þeirra með Bretum, einum bandamanna okkar í fámennri sveit lýðræðisríkja í ofbeldishneigðum heimi harðstjóra.

Villimenn í austri og vestri og suðri eru reiðubúnir að draga lærdóm af Falklandseyjadeilunni. Sigur herforingjanna mun leiða til aukins ofbeldis í samskiptum ríkja. Ósigur þeirra mun hins vegar draga úr slíku ofbeldi.

Tilkall Breta til Falklandseyja er svo sem ekki mikið eða merkilegt. En íbúarnir þar líta þó á sig sem brezka og hafa hingað til kosið að vera brezk nýlenda. Þannig eru Falklandseyjar ekki sambærilegar við Jan Mayen.

Friðsamlegasta og bezta lausn deilunnar er bráðabirgðastjórn þrívelda, Bandaríkjanna, Bretlands og Argentínu, eftir skjóta brottför argentínska hersins. Síðan gæti Bretland fengið eyjarnar að láni í Hong Kong stíl til 30 til 50 ára, en Argentína fengi endanlegan yfirráðarétt.

Þetta er það, sem málsaðilar voru að reyna að semja um, áður en ofbeldið varð ofan á. En hvernig sem deilan fer, þá er samúð okkar öll með Bretum og engin með arftökum nasistanna.

Jónas Kristjánsson

DV