Argentína

Veitingar

Argentína hefur lengi verið bezta steikhúsið í landinu. Þar er kjötið selt eftir vigt og steikt á viðarkolum. Það er feitt kjöt í UN2F flokki af gamla, íslenzka, bragðgóða nautakyninu. Seiga Galloway-ruslið kemur þar ekki inn fyrir dyr. Vegna þessara staðarreglna er hægt að treysta því, að n
autakjötið sé gott. Enda verður það að vera gott, þegar verðið er um 2400 krónur fyrir aðalréttinn einan.
Argentína er hvorki fín né smart að útliti, en hefur góðlátlegt svipmót, næstum rómantískt. En fjögurra sæta básar í skipulögðum röðum verða seint notalegir fyrir gesti og þjóna. Rustalegar innréttingar eru ættaðar frá Gauchos í Amsterdam, sem ég ímynda mér, að hafi stælt veitingastaðastíl, er þótti sniðugur í Reykjavík fyrir meira en áratug og var aldrei annað en búralegur.

Þjónusta er góð og borðbúnaður í bezta lagi. Vínglös eru með réttu lagi. Þurrkur eru efnismiklar og góðar, þótt þær séu ekki úr taui. Vínlisti er góður og býr meðal annars yfir argentínsku rauðvíni, Cabernet Sauvignon og Don Federico. Með mat eru bornir fram volgir brauðhnúðar ágætir og frambærilegt ísbergssalat í olíusósu.

Empanada er nafnið á fylltu brauði þykku, sem minnti í áferð og bragði á íslenzka klatta hálfsæta. Inni í því var grænmeti og fiskur í eitt skiptið og í annað skiptið kjöthakk og laukur. Þetta hefur mér reynzt góður forréttur.

Glóðaður humar var frábær að bragði, yndislega meyr, borinn fram á teini. Argentínsk kjötsúpa var of mikið rjómuð, en bragðgóð, full af kjötbitum og grænmeti. Grafinn nautavöðvi var enn einn góði forrétturinn.

Prímarif eru í boði fimmtudaga. Það er kjöt af framhrygg ungra og feitra nautgripa. Þetta var mjúkt kjöt, sem skera mátti með gaffli, með miklum fitulögum. Fitan er góð við eldun, en gestir þurfa síðan að skera hana frá. Prímarifinu fylgdu djúpsteiktir sveppir, sem hæfðu ekki réttinum og djúpsteikingin ekki heldur sveppunum.

Nákvæmur steikartími

Nautalundir staðarins eru í ýmsum stærðum, eldaðar eftir kúnstarinnar reglum, sérstaklega ánægjulegur matur. Eldunin var nákvæmlega sú, sem beðið var um, svo sem alltaf hefur verið reynslan á þessum merka stað. Lambahryggvöðvi var líka góður, eldaður að einföldum og nákvæmum nautakjötshætti, svo sem vera ber.

Í heild er matreiðsla staðarins einföld og nákvæm í tímasetningum. Á matseðlinum er mest áherzla lögð á hráefni og mismunandi magn þess, en minna sagt frá sósum og öðrum hliðaratriðum eins og tíðkast í franskættuðum veitingahúsum. Meðlætið er að mörgu leyti staðlað, svo sem bökuð kartafla með aðalréttum.

Af eftirréttum fannst mér áhugaverðastur sneiddur súkkulaðibúðingur í þremur lögum, með rifsberjum og rjóma. Ennig var góður bakaður banani með karamellusósu og vanilluís svo og mangó-ískrap. Mér sýndist argentínska mjólkurhlaupið vera horfið af matseðlinum.

Ég var orðinn svo vanur stöðum með ítalska kaffilögun, að ég spurði þjóninn, hvernig kaffi hann væri með.

“Ég er bara með gott kaffi.”

Eitt núll fyrir hann, enda var kaffið gott.

Jónas Kristjánsson

DV