Argentína

Veitingar

Bæjarins bezta steikhús hefur dalað. Þótt nautakjötið á Argentínu sé enn af íslenzkum stofni, vel verkað og vel eldað, er það ekki alveg eins innanfeitt og safaríkt og það var áður fyrr, enda hafa bændasamtökin lengi verið að reyna að útrýma þessum bragðmikla stofni í þágu innfluttra nautakynja.

Þetta eru dýrustu og enn þá beztu nautasteikur landsins, seldar eftir þyngd og með vali milli fimm steikingartíma, bornar fram með bakaðri kartöflu og pönnusteiktu grænmeti, svo og fjórum sósum. Steikurnar kosta að meðaltali um 2.800 krónur og þríréttað með kaffi kosta þær um 4.600 krónur.

Nautasteikurnar góðu eru það eina, sem réttlætir verðlag, er jaðrar við Íslandsmet. Önnur matreiðsla er stöðluð og hversdagsleg, þótt hún sé traust. Þjónusta er góð, en hún er það líka víðast hvar í bransanum. Munnþurrkurnar eru úr pappír og duga ekki í viðureign við hrásalat, sem flýtur í sterkkryddaðri olífuolíu.

Sérkennileg aðkoma er að Argentínu um löng göng með hrjúfu gólfi inn að yfirbyggðum húsagarði. Þar er komið inn á þröngan bar með setustofum á annan veginn og veitingasal á hinn, þar sem gestir sitja í gæruskinnsklæddum básum og rýna í matseðla með hjálp vasaljósa í myrkrinu.

Dimman hæfir vel ljótum innréttingum úr groddalegu timbri og gervimúrsteinum. Við þekkjum formúluna frá argentínskum steikhúsum víða um heim og látum ekki hugfallast, því að undantekningarlítið glóir á góðar steikur á viðarkola-eldavél í salnum.

Maískökusneiðar á hrásalati voru bragðgóðar, salatið ferskt og olífuolían skemmtilega krydduð. Grillaður risahörpufiskur minnti hins vegar á surimi, bragðlaus og festulaus, eins í gegn, borinn fram með mildri chili-sósu. Bezti forrétturinn var kryddlegið andalæri, meyrt og gott, hóflega sykurgljáð, með plómusósu.

Lambahryggvöðvi með fáfnisgraskrydduðum sinnepsgjáa var miðlungi steiktur, þótt beðið væri um hann eins lítið steiktan og kjötið þyldi, borinn fram með steiktu grænmeti, sem hafði gleymzt á pönnunni. Sams konar grænmeti með nautakjöti við annað tækifæri var hins vegar snöggsteikt, stinnt undir tönn og gott.

Nautalundir eru bezta nautakjötið á staðnum, betri en piparsteikin, sem fylgir fast á eftir. Þótt kjötið sé nógu meyrt til að gera óþarfar sósurnar fjórar, er ekki hægt að skera það með gaffli eins og oft í gamla daga.

Eftirréttir, einkum ísar, eru minnisstæðir, en ekki merkilegir. Myndarlegur karamelluísturn var stinnt reðurtákn. Volg jarðarber voru borin fram með vanilluósu, sem dempuðu berjabragðið. Espresso-kaffi var þunnur þrettándinn.

Jónas Kristjánsson

DV