Arkin og atómstöðin.

Greinar

Þakka ber William Arkin fyrir að ljóstra upp um bandarískar kjarnorkuáætlanir, sem í tíu ár hafði verið haldið leyndum fyrir stjórnvöldum þeirra ríkja, er koma við sögu í ráðagerðum þessum. Uppljóstrun hans mun sennilega leiða til vandaðri vinnubragða af bandarískri hálfu í framtíðinni.

Ekki er lengur hægt að afskrifa Arkin sem áhugamann, þótt hann hafi fyrir fimm árum hampað röngum upplýsingum um kjarnorkuvopn á Íslandi. Nú er komið í ljós, að hann er sérfræðingur, sem taka verður mark á, þótt upplýsingar hans séu enn ekki alveg nákvæmar.

Bandaríski flotinn hefur í tíu ár samið og endursamið áætlanir, staðfestar af forsetum landsins, um að flytja kjarnorkuvopn til Íslands og sex annarra landa, að fenginni heimild forseta Bandaríkjanna og stjórnvalda landanna, sem ætlað er að hýsa vopnin.

Upphaflega var gert ráð fyrir, að ekki þyrfti sérstaka heimild forseta Bandaríkjanna, en í þeirri áætlun, sem nú gildir, þarf að fá slíka heimild. Alltaf hefur verið gert ráð fyrir, að heimild þyrfti að fá hjá stjórnvöldum viðkomandi ríkja bandamanna.

Ekkert er athugavert við, að slíkar áætlanir séu samdar og staðfestar heima fyrir í Bandaríkjunum. Hitt er athugavert, að áætlunum sé haldið leyndum fyrir öðrum málsaðilum, stjórnvöldum landanna sjö. Í því felst óviðeigandi fyrirlitning á bandamönnum Bandaríkjanna.

Robert Falls, fyrrum yfirmaður kanadíska hersins, hefur sagt, að það sé siðlaust að gera áætlanir um notkun annarra landa í viðkvæmum tilfinningamálum á borð við kjarnorkuvopn án þess að hafa um það samráð. Bandaríkin séu siðferðilega skyldug að hafa slík samráð.

Forstjóri Atlantshafsbandalagsins, Carrington lávarður, hefur gagnrýnt vinnubrögðin vestra. Hann segir við hæfi að leitað sé samráða við stjórnvöld viðkomandi ríkja um slíkar kjarnorkuáætlanir. Ennfremur segir hann, að ekki eigi að draga slík samráð til síðustu stundar.

Íslenzk stjórnvöld hafa komið rétt fram í málinu. Geir Hallgrímsson tók með fyrirvara mark á William Arkin og krafðist skýringa hjá sendimanni bandaríska utanríkisráðuneytisins. Um síðir komu loðin svör, sem íslenzk stjórnvöld hafa talið nokkurn veginn fullnægjandi.

Svörin fólu í sér, að engin kjarnorkuvopn yrðu flutt hingað til lands án leyfis íslenzkra stjórnvalda. Þessi svör hafa nú verið staðfest í fjölmiðlum í Bandaríkjunum og Kanada. Þar með er málið úr sögunni að sinni, en hins vegar ekki lærdómurinn, sem fylgir því.

Stundum gætir tilhneigingar hjá bandarískum embættismönnum og einkum þó herforingjum að líta á bandamenn sem eins konar leppríki. Almenningur í Mið og Suður-Ameríku hefur mátt þola mikinn yfirgang leppa af ýmsu tagi. En hér á Íslandi hafna menn því algerlega að vera leppríki.

Það er í stíl við hugarfarið, að bandarískir embættismenn hafa látið í ljósi megna óánægju með framgöngu Arkins og hafa á orði að sækja hann til saka fyrir brot á lögum um öryggi ríkisins. Hefur hann þó ekki gert annað en að stuðla að siðaðri ráðagerðum þeirra í framtíðinni.

Vonandi þurfum við ekki aftur á Arkin að halda. Við viljum ekki, að fleiri leyndarskjöl séu til, sem varði okkur í viðkvæmum ágreiningsefnum. Sem bandamenn krefjumst við, að komið sé hreint fram við okkur. Trúnaðartraustið hefur laskazt og má ekki við öðru áfalli.

Jónas Kristjánsson.

DV