Frá Bólstað við Sóleyjarhöfðavað að Arnarfelli í Hofsjökli.
Á þessari leið breiða Þjórsárver úr sér með blautum flóum og tjörnum og gæsaréttum á víð og dreif. Þetta land er á Ramsar-skrá, samningi um alþjóðlega mikilvægt votlendi, aðallega búsvæði fugla. Þriðjungur allra heiðagæsa í heiminum verpir hér.Þetta er forna Sprengisandsleiðin. Vöðin í Þjórsárverum urðu með tímanum torfær og þá var gripið til Sóleyjarhöfðavaðs, þegar leiðin var vörðuð suður Gnúpverjaafrétt sumarið 1906. Nú er Sóleyjarhöfðavað ekki heldur árennilegt. Þjórsá og Þjórsárkvíslar eru hins vegar vel reiðar norður við Arnarfell. Hestamenn fara samt heldur annað hvort um Hnífárver eða upp með Blautukvísl eða þá vestan frá Setrinu. Allt eru það greiðar leiðir við venjulegar aðstæður og eru raunar fegurri líka. Norðan við Arnarfellsöldu hafa fundizt breiðar reiðgötur, sem sýna feiknarlega umferð fyrri alda. Þær eru göturnar, sem Þórður kakali reið, þegar hann leitaði sér liðveizlu hjá Hálfdani Oddaverja og Steinvöru á Keldum á Rangárvöllum. Vestan við Arnarfellsöldu eru kofarústir síðustu útilegumanna landsins, frá 1848.
Förum frá Bólstað við Sóleyjarhöfðavað upp með Þjórsá og yfir Blautukvísl nálægt Þjórsá. Þar geta verið sandbleytur. Síðan förum við greiða leið með Þjórsá um Oddkelsver að vaði austan undir Oddkelsöldu. Þar geta líka verið sandbleytur. Leiðin liggur áfram um Illaver upp með Þjórsá og yfir tvær Múlakvíslar. Þar erum við komin í Arnarfellsver. Síðan förum við vestan við Arnarfellsöldu og yfir ós milli öldunnar og stöðuvatns vestan öldunnar. Fyrir norðan ölduna komum við á fornar götur og fylgjum þeim upp með Innri-Múlakvísl að austanverðu í átt að Arnarfelli. Við komum að götum að vestan um Arnarfellsmúla og fylgjum þeim yfir Arnarfellskvísl og að Arnarfelli.