Arnarstakksheiði

Frá Selsmýri norðan Reynisfjalls að Kerlingardal.

Arnarstakksheiði er að baki Víkur í Mýrdal. Hún var þjóðleið að fornu, því að þá gekk sjór upp að Víkurhömrum og Fagradalshömrum, svo að ófært var, þar sem nú er bílvegurinn.

“Galdra-Héðinn fór upp á Arnarstakksheiði og efldi þar blót mikið. Þá er Þangbrandur reið austan, þá brast í sundur jörðin undir hesti hans, en hann hljóp af hestinum og komst upp á bakkann, en jörðin svalg hestinn með öllum reiðingi.”
Arnarstakksheiði kemur mikið við sögu í Njálu. Vestan Kerlingardalsár komu Kári Sölmundarson og Þorgeir skorargeir af Arnarstakksheiði, börðust við Sigfússonu og aðra brennumenn nálægt eyðibýlinu Bólstað og höfðu sigur.

Byrjum við þjóðveg 1 í Selsmýri norðan Reynisfjalls og Víkur í Mýrdal, í 120 metra hæð. Förum þar sunnan við fjallið Arnarstakk upp gilið Götuskál upp í 280 metra hæð og síðan austur eftir heiðinni sunnan og ofan við Heiðarvatn. Förum sunnan við Kennarafell og norðan við Höttu og síðan niður Uppferðartorfu, sem er vestan við eyðibýlið Bólstað í Kerlingardal. Skammst austan við Bólstað er þjóðvegur 214 til Kerlingardals í 20 metra hæð.

7,7 km
Skaftafellssýslur

Nálægir ferlar: Höfðabrekkuheiði.
Nálægar leiðir: Heiðarvatn, Heiðardalsvegur, Mýrdalssandur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins