Kerfið hefur ákveðið að fórna Árna Johnsen og honum einum. Ráðamenn embætta og stjórnmála keppast um að lýsa yfir, að velt verði við hverjum steini í fjármálaumsvifum Árna á vegum ríkisvaldsins. Þeir þegja hins vegar þunnu hljóði um kringumstæður spillingarinnar.
Árni var ekki einn í heiminum. Hann var aðili að kerfi, sem gerði honum kleift að leika lausum hala árum saman. Hann hefði áfram fengið að valsa um gullkistur ríkisins, ef DV og að nokkru Ríkisútvarpið hefðu ekki opnað gröftinn út með töngum, gegn vilja ráðamanna.
Hvarvetna reyndu ráðamenn embætta og einkafyrirtækja að slá skjaldborg um Árna og hylma yfir með honum. Það voru hins vegar óbreyttir starfsmenn á ýmsum stöðum, sem höfðu augun hjá sér, undruðust takmarkalausa ósvífni og gáfu fjölmiðlum upplýsingar.
Að baki Árna voru ráðuneyti menntamála og fjármála, svo og sérstök Framkvæmdasýsla ríkisins. Á öllum þessum stöðum vissu háttsettir embættismenn um fjármálaumsvif Árna, skrifuðu upp á reikningana og létu greiða þá, stundum eftir útskýringar til málamynda.
Rannsókn ríkisendurskoðanda ætti að beinast að þessu kerfi. Hún ætti að leita svara við, hvernig embættismenn samþykkja umsvif af því tagi, sem upplýst hafa verið undanfarna daga. Telja embættismenn sig stikkfrí, ef umsvifamaðurinn er flokksbróðir ráðherrans?
Eðlilega leikur nokkur forvitni á að vita, hvort háttsettir embættismenn ríkisins hafa sett kíkinn fyrir blinda augað í fleiri tilvikum en Árna eins. Hvað ræður því, hvenær og hvernig eðlileg stjórnsýsla er látinn lönd og leið og einum manni leyft að valsa um hirzlurnar?
Fyrstu ummæli ríkisendurskoðandans benda til, að honum hafi verið sagt að takmarka rannsóknina við Árna einan og láta umhverfi hans kyrrt liggja. Hann á að velta við hverjum steini í sögu Árna, en ekki rannsaka aðstæðurnar, sem gerðu harmsögu hans mögulega.
Efasemdarmenn hljóta að spyrja, hvort Árni sé eini stjórnmálamaðurinn, sem hafi makað krókinn með aðstoð embættismanna. Þeir hljóta líka að spyrja, hvort fleiri einstaklingar, stofnanir eða fyrirtæki, t.d. verktakar hafi makað krókinn með aðstoð embættismanna.
Fyrir þjóðfélagið og ríkið ætti að skipta miklu meira máli að finna orsakir meinsins en að ná sér niðri á Árna. Ef brotalamirnar finnast og vinnureglum stjórnsýslunnar verður breytt, höfum við lært af reynslunni og dregið úr líkum á hliðstæðri spillingu í framtíðinni.
Harmleikur Árna kemur að gagni, ef ríkiskerfið verður gert gegnsærra, ef fjölmiðlar fá betri og skjótari aðgang að gögnum embætta, ef enginn verður sinn eigin eftirlitsmaður í kerfinu, ef embættismenn verða látnir sæta ábyrgð fyrir vanrækslu og yfirhylmingar.
Í nágrannaríkjum okkar væru ráðherrar menntamála og fjármála búnir að segja af sér, ennfremur embættismenn ráðuneytanna, sem höfðu með Árna að gera, svo og forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins. Hér ber hins vegar enginn neina ábyrgð og allra sízt stjórnmálamenn.
Í staðinn keppast allir þessir valdaaðilar við að lýsa frati á Árna og heimta, að ríkisendurskoðunin valti yfir hann kruss og þvers, en bara hann einan. Markmið þeirra er að hindra, að almennar ályktanir verði dregnar af málinu og að vinnubrögð annarra verði skoðuð.
Málið er komið í þennan notalega farveg. Kerfið hefur ákveðið að fórna einum til að friða þjóðina, svo að hinir sleppi. Það hefur ákveðið að hengja Árna fyrir alla.
Jónas Kristjánsson
DV