Framsóknarflokkurinn var ekki að reyna að koma í veg fyrir borgarstjóra á vegum Samfylkingarinnar, enda var niðurstaða samsæris gegn Degi B. Eggertssyni samfylkingarmanni, að samfylkingarkonan Steinunn Valdís Óskarsdóttir varð borgarstjóri og verður ein af stjörnum Samfylkingarinnar.
Grundvöllur plottsins var, að Halldór Ásgrímsson er veikur foringi, sem á erfitt með að ákveða sig, svo sem komið hefur í ljós, þegar hann hefur legið langtímum saman yfir skiptum á ráðherrum innan flokksins. Ungir potarar hafa náð eyrum hans og komizt inn í tómarúmið til að láta að sér kveða.
Þetta eru einkum aðstoðarmenn ráðherra, Árni Magnússon félagsráðherra og forustumenn trúfélags Fíladelfíu. Þessir menn ákváðu að misnota borgarstjóravanda R-listans til að koma til valda bæjarstjóra Framsóknarflokksins í Hveragerði út á það, að hann væri bróðir þingkonu úr Samfylkingunni.
Það var skortur á dómgreind að ætla, að bæjarstjóri úr sveitarfélagi, sem er með öll fjármál í hers höndum, geti dugað í embætti borgarstjóra í Reykjavík. Enda þýddi ekki að halda fram Orra Hlöðverssyni. Hann hafði ekki einu sinni allan styrk Framsóknar, hvað þá hinna afla R-listans.
Árni og Fíladelfía tefldu þessa vonlausu skák mjög hart og settu fram kenninguna um, að Framsókn mætti ekki ala upp leiðtoga fyrir Samfylkinguna í sæti borgarstjóra. Þetta trikk dugði til að fella Dag, en potarar höfðu þá ekki frambærilegan frambjóðanda og urðu mát fyrir Steinunni.
Raunar er það íhugunarefni fyrir Reykvíkinga, að Árni Magnússon og Fíladelfía voru að plotta með mál borgarinnar undir því yfirskini, að taflmennska þeirra væri að undirlagi Halldórs Ásgrímssonar, sem var úti að aka í þessu máli sem oftar. Frekja og dómgreindarleysi fylgdust að í skákinni.
Einnig er íhugunarefni fyrir Reykvíkinga, að sértrúarfélag er farið að plotta með mál borgarinnar. Ekki virðist vera neinn trúarvinkill eða Guðsvinkill á skákinni, heldur er raunin sú, að framapotarar úr Framsókn hafa tekið völd í Fíladelfíu eins og í ýmsum stjórnum félaga og stofnana.
Fyrir alla er íhugunarefni, að í tómarúminu kringum Halldór Ásgrímsson hafa risið upp potarar, sem eru önnum kafnir við að hanna atburðarásir í nánu og fjarlægu umhverfi. Þetta er harðskeytt lið, sem vinnur eftir reglunni um, að sá, sem er ekki með mér, er á móti mér. Honum skal vísað úr himnaríki.
Hinir lélegu skákmenn vísuðu líka Kristni H. Gunnarssyni úr himnaríki flokksins og eru nú að fá hann tvöfaldan í hausinn aftur. Dómgreindarskertir munu þeir áfram valda tjóni.
Jónas Kristjánsson
DV