Árvisst upphlaup

Greinar

Við höfum áður heyrt af fjárhagsvanda Landsspítalans, ekki bara í fyrra og hittifyrra, heldur svo langt sem minnið nær. Árvisst er, að tekjur spítalans nægja ekki fyrir gjöldum og að hlaupið er upp til handa og fóta, sumpart til að sýnast, sumpart til að spara og sumpart til að minnka þjónustu.

Nú er hvellurinn hærri og niðurskurðurinn meiri en venjulega. Í stórum dráttum er þó málið kunnuglegt. Einhver grundvallarmisskilningur hlýtur að vera í rekstrarforsendum og rekstri aðalspítala landsins, eitthvað sem hægt er að læra af, svo að eðlilegt rennsli náist í rekstrinum.

Spítalinn er rekinn á vegum heilbrigðisráðuneytisins, sem á að vita, hvort hann sé að gera það, sem hann á að gera eða eitthvað annað og meira. Stöðugt rekstrartap er áfellisdómur yfir vanmáttugu ráðuneyti, þar sem greinilega er allt í ólagi í senn, pólitík, stjórnsýsla og viðskiptafræði.

Annað ráðuneyti kemur að þessu rugli eins og svo mörgu rugli í opinberum rekstri. Það er fjármálaráðuneytið, sem meira að segja lét af hendi ráðuneytisstjóra sinn fyrir nokkrum árum, svo að hann mætti verða forstjóri ríkisspítalanna. Toppmaður kerfisins var fenginn til að koma skikki á erfiðleikana.

Síðan hefur staðan versnað. Fjölgað hefur verið tegundum af silkihúfum og stofnað til margvíslegrar úlfúðar milli ýmissa tegunda yfirmanna. Því er freistandi að ætla, að embættisbákn ríkisins hafi ekki upp á neitt mannval að bjóða í forstjórastóla, sem sé sambærilegt við einkageirann.

Unnt hlýtur að vera að skilgreina, hvað sé að á spítalanum. Er önnur hönd ríkisins að minnka velferðina með fjárlögum, meðan hin höndin eykur hana með sérlögum, reglugerðum eða öðrum ákvörðunum? Er samræmi milli verkefna spítalans og fjármagnsins, sem til þeirra er ætlað á fjárlögum?

Er innbyggð verðbólga í kerfinu, sem veldur því, að velja þarf milli óbreytts þjónustustigs á hærra verði og lægra þjónustustigs á óbreyttu verði? Er tilviljanakennt, hvort ný og dýrari lyf eða hvort ný og dýrari lækningatækni er tekin í notkun? Er enginn, sem velur og hafnar breytingum?

Þótt ráðherrar og Alþingi skipi stjórnarnefnd, sem lengi hefur ekki verið starfi sínu vaxin, eru það eigi að síður ráðuneytin tvö, sem eiga að hafa spítalann í gjörgæzlu. Þaðan á að koma leiðsögn um, hvers konar athafnir rúmast og rúmast ekki innan heilbrigðisþáttar velferðarkerfisins.

Vandinn er, að ráðuneytin hafa ekki burði til að viðurkenna, að einhver þarf að skilgreina jafnóðum, hvað eigi að rúmast innan velferðarinnar og hvað eigi að standa utan hennar.

Jónas Kristjánsson

DV