Ásdís Halla Bragadóttir

Greinar

Hún sagði ekki í viðtalinu, að pólitískir andstæðingar hennar færu með mikinn misskilning. Hún tuggði ekki neina af klisjunum, sem einkenna landsfeður okkar og valda almennum leiða í þjóðfélaginu. Hún nefndi varla flokkinn sinn á nafn. Kannski er hún stjórnmálaforingi framtíðarinnar.

Ásdís Halla Bragadóttir var í opnuviðtali hér í blaðinu á laugardaginn. Hún kom vel fyrir í svörum sínum og talaði þá íslenzku, sem stjórnmálaforingjar okkar týndu áður en þeir fóru að semja ályktanir flokksþinga um, að kannski megi hugsanlega ræða aftarlega í aukasetningu um Evrópusambandið.

Bæjarstjórinn í Garðabæ gerði að vísu stuttan ágreining við Reykjavíkurborg um stefnuna í skólamálum og rökstuddi hann vel. Í borginni hafa aðeins hinir ríku frelsi til að velja skóla. Í Garðabæ fylgir fjármagnið hins vegar nemandanum, hvert í skóla sem hann vill fara. Hann fær eins konar tékka.

Róttæk breyting á skólakerfinu í Garðabæ hefur farið af stað nokkurn veginn í sátt við samfélagið, öfugt við Hafnarfjörð og Reykjavík, þar sem allt hefur gengið af göflunum af svipuðu tilefni. Kannski er unga konan úr Ólafsvík hæfari en eldri pólitíkusar landsins til að bera klæði á vopnin.

Auðvitað á að gera tilraun með einkaskóla, einmitt með því að láta börnin hafa tékka, sem þau geta innleyst í þessum skólanum eða hinum. Það skapar samkeppni og örvar hugsun. Þar með er ekki sagt, að einkaskólar séu betri en opinberir skólar, slíkt getur aðeins reynslan sagt á löngum tíma.

Í Garðabæ hefur bæjarstjórinn forustu um að breyta skólum og reyna að fá inn nútímaleg hugverkafyrirtæki á borð við Marel og Háskólann í Reykjavík, svo að svefnbærinn megi breytast úr svefnherbergi í fullbæran vettvang atvinnulífs. Kannski tekst þetta ekki, en það er að minnsta kosti reynt í alvöru.

Hugsið ykkur muninn á þessum bæjarstjóra og bæjarstjóra sama flokks á Seltjarnarnesi. Þar fer öll orkan í að slást við vilja borgarbúa í skipulagsmálum, reyna með öllum tiltækum ráðum að færa fótboltavöll um 500 hundruð metra og reisa þar íbúðahverfi, sem Seltirningar vilja almennt ekki sjá.

Á Seltjarnarnesi ríkir sama forneskja og í landsmálunum, en í Garðabæ er vísir að nýjum tíma. Kannski á Ásdís Halla eftir að breytast í skapvondan skætingskall að hætti Davíðs Oddssonar eða Halldórs Ásgrímssonar, en nú flytur hún að minnsta kosti vonarneista inn í staðnað pólitískt líf.

Kominn er í landsmálunum tími til nýs fólks, sem getur tekið við af gegnrotnu helmingskiptafélagi þeirra, sem hafa haldið völdum langt fram yfir eðlilegan pólitískan líftíma sinn.

Jónas Kristjánsson

DV