Asía

Veitingar

Asía er furðuleg tegund veitingastaðar. Ég heimsótti hann fjórum sinnum til að reyna að skilja hann. En það tókst mér ekki.

Þar er á einum og sama stað boðið upp á matreiðslu frá Víetnam, Filipseyjum, Indónesíu og Japan. Ég hef aldrei áður komið í matstofu, sem þykist fulltrúi jafnmargra landa.

Einkum er óvenjulegt að hafa Japan í slíkum pakka, því að Japan er sérstakur matreiðsluheimur út af fyrir sig, með allt aðrar hefðir en þær, sem einkenna löndin í Suðaustur-Asíu.

Thailand eða Malaysía hefðu fallið betur inn í hópinn, þar sem matreiðslan þar er skyld matreiðslu í fyrstnefndu þremur löndunum.

Mér sýnist aðferðin í matstaðnum á horni Laugavegar og Bergstaðastrætis vera sú, að einn kokkur sé í eldhúsinu, sennilega frá Víetnam, og að hann reyni að setja sig í spor fjögurra þjóða í senn, allt eftir því hvað ólíkum gestum dettur í hug að panta af firnalöngum matseðli.

Slíkt er hverjum manni ofætlun, enda tekst það ekki í Asíu. Miklu nær væri að halda sér við eina matreiðsluhefð og reyna að fremja hana vel.

Ódýrt hlaðborð
ekki frambærilegt

Í hádeginu freistar Asía með tilboði úti á götu um 790 króna hlaðborð, með kaffi inniföldu í verðinu.
Þeir, sem hyggjast notfæra sér það, ættu að vera komnir á slaginu klukkan tólf, því að fljótlega verður þetta borð ólystugt. Djúpsteiktar rækjur verða til dæmis fljótt harðar og vondar, ef þær liggja í hitakassa. Djúpsteikti smokkfiskurinn var betri, enda er hann ekki eins viðkvæmur matur.

Í hitakössunum var líka grænmeti, blandað örlitlu svínakjöti, vondur réttur, og lambakjöt í karrí, ekki beinlínis vont, en samt ekki frambærilegt. Eggjadropasúpan var hætt að vera volg og byrjuð að verða köld. Á salatborði var góður laukur og hvítkálsstrimlar, en annað var fremur ómerkilegt og bar þar hæst grænar niðursuðubaunir. Á sama hlaðborði voru ýmsir austrænir ávextir úr dósum. Hrísgrjónin voru í lagi og sömuleiðis kaffið.

Japansmatur
reyndist beztur

Bezt reyndist mér japanska matreiðslan í Asíu. Ég prófaði sem forrétt blandað “sushi” á 650 krónur. Það voru þrjár hrísgrjónabollur með hráum sjávarafla, ein með rosalega meyrum og góðum hörpufiski, önnur með safaríkum humar og hin þriðja með reyktum lax. Þetta var nógu gott til að fyrirgefa staðnum hádegishlaðborðið.

Í aðalrétt fékk ég blandað “tempura”, það er að segja djúpsteikta sjávarrétti og grænmeti á 1250 krónur. Hörpufiskurinn var frambærilegur, en ýsan var með alltof þykkum steikarhjúp. Með þessu var þykk og sæt sósa, sem fór vel við djúpsteikinguna. Á sérstökum diski voru kryddlegnar gúrkuræmur og smokkfiskræmur, óvenjulegur og góður matur.

Asía býður á 1790 krónur japanskan málsverð, sem felst í “miso”-rauðbaunasúpu, “sushi”-hráfiski, “tempura”-fiski djúpsteiktum, og “teriyaki”-grillnauti sojalegnu. Þessi málsverður hefur þann kost að vera sýnishorn af ferns konar matreiðsluhefð í Japan og þar að auki frambærilega eldaður.

Rijsttafel var
misheppnað

Indónesíuhliðin á veitingahúsinu Asíu nær hámarki í fimmtán rétta veizlu, hollenzkri “rijsttafel”, sem margir Íslendingar þekkja frá indónesískum matstofum í Amsterdam. Á horni Laugavegar og Bergstaðastrætis kostaði þessi veizla 1890 krónur á mann og var algerlega misheppnuð.

“Soto”-súpa tær var sæmileg. “Krupuk”-rækjubrauðflögur voru án nokkurs rækjubragðs. “Emping”-tapíókaflögur voru líka bragðlausar og tæpast mjög indónesískar. “Saté”-grillpinnar voru með þurru grísakjöti, en sæmilegri hnetusósu. “Sambal”-humar í bráðsterkri sósu var í sjálfu sér meyr, en bragðlaus vegna sósunnar. “Telor”-núðlur reyndust vera spaghetti, lakara en hjá Ítölum. “Lumpia”-vorrúllur með góðu fiskihakki voru vel kryddaðar, en of þykkar og raunar fremur ættaðar frá Filipseyjum en Indónesíu. “Ajam Opor”-karríkjúklingur í kókosmjólkursósu bjó yfir sterku karríbragði og engu öðru bragði. “Rendang”-karrílamb var mun betra. “Baki Mani”-pönnugrís í sojasósu var í þunnum flögum, frambærilegur. “Daging Pedis”-grillnaut í chilisósu var í of miklum steikarhjúp. “Gado Gado”-grænmetissalat soðið með kryddaðri hnetusósu var gott. “Nasi Kunnig” hrísgrjón soðin í kókosmjólk voru nokkuð góð, en ekki krydduð með turmeric, svo sem vera hefði átt samkvæmt nafni réttarins. Svo gleymdist að bera fram fjórtánda og fimmtánda réttinn í rijsttafel-veizlunni, “Sajor Karri”-grænmeti og “Pisang Goreng”-banana bakaða.

Krókaleið frá
Bandaríkjunum

Að áliti kokksins í Asíu felst matreiðsla Filipseyja einkum í bandarískri barbekjú-sósu. Á Filipseyjamáli veitingastaðarins heitir þessi matreiðsla “Barbekyung”. Gaman er að njóta bandarísku áhrifanna eftir slíkum krókaleiðum. Ég prófaði hins vegar “Gisadong”-lambakjöt snöggsteikt. Það var góður matur, en góð grillsósan minnti á Ameríku.

Ég hefði heldur átt að prófa einhvern “Adobong”-réttinn, í þeirri von að fá raunverulega Filipseyja-pönnusteikingu á hráefni, sem legið hefði í kryddblönduðu ediki.

Engin “Kari-Kari”-súpa var á matseðlinum og “Lumpia” hafði villzt inn á indónesíska matseðilinn. Í heild má segja, að Asía gefi fremur þunna mynd af matreiðslu Filipseyja.

Höfundur
gafst upp

Þegar hér var komið sögu, var ég búinn að mæta fjórum sinnum í Asíu til að reyna að skilja staðinn, án þess að ég hefði árangur sem erfiði. Því prófaði ég aldrei matseðilinn frá Víetnam, þar sem mest bar á “Chow Mein”-núðlum.

Þar var einnig getið “Saigon”-kjúklinga og “Mekong”-kjúklinga. Ég man ekki eftir að hafa séð slíkar nafngiftir áður í víetnömskum matstofum. Ég held, að þetta séu matarnöfn, sem hafi verið framleidd fyrir ameríkumarkað.

Vonandi finna gestir í þeim matseðli og þeirri matreiðslu eitthvað, sem ég fann ekki í hinum þremur matseðlunum. Ég var búinn að koma fjórum sinnum í Asíu og gat ekki eytt meiri tíma í þennan sérkennilega stað, því að dagblað kallar auðvitað á nýja grein um nýjan stað. Tíminn flýgur hratt.

Sessurnar eru of
fínar fyrir gesti

Asía er í húsnæði, þar sem áður var Nesco. Þar komast líklega fyrir um 70 manns í virðulegum sal vinstra megin og mötuneytislegum sal hægra megin, þar sem hlaðborðið er í hádeginu.

Í miðgangi og vinstri sal eru miklar formúluskreytingar, sem keyptar hafa verið í fermetratali. Þar er öll línan, málverk, ljósakrónur, skermar, bogagöng, reitað loft, útskornir stólar, grímur og allt sem menn gætu hugsað sér austrænt.

Hér er allt hreinlegt. Svo langt gengur nákvæmnin á því sviði, að fínar sessur stólanna eru klæddar þykku plasti, svo að gestir geti svitnað í botninn.

Bezti kostur staðarins eru handþurrkurnar, sem eru úr svo þykkum pappír, að þær gera jafnvel meira gagn en tauþurrkur mundu gera. Svona þurrkur mættu fleiri matstaðir útvega sér.

Þjónustan í Asíu er nokkuð misjöfn. Sumpart er hún fremur óörugg og lítt kunnug matnum, sem staðurinn selur. Í annan stað getur hún verið til fyrirmyndar.

Engin
undirboð

Fjölrétta veizlur með matreiðslu eins lands kosta yfirleitt 1950 krónur og 2390 krónur, ef japanska veizlan er valin. Líka er hægt að fá sýnishorn frá hverju landi, fjóra litla rétti á 1390 krónur. Öll tilboð af slíku tagi eru miðuð við, að tveir að minnsta kosti séu um hituna.

Ef fólk velur staka rétti af matseðli fer miðjuverð tveggja rétta máltíðar og kaffis í 1700 krónur, sem mér sýnist vera miðlungsverð í Reykjavík. Asía er alls ekki ódýr staður á borð við flesta slíka staði í útlöndum, þar sem austrænir staðir hafa aflað sér markaðar með því að undirbjóða hefðbundin veitingahús.

Frávik Asíu frá miðlungsverði er hádegishlaðborðið á 790 krónur, en ég tel matreiðslu þess ekki frambærilega.

Jónas Kristjánsson.

DV