Matreiðslan á Asíu er mér ekki minnisstæð. Ef ég hefði ekki skrifað allt niður á staðnum, myndi ég tæpast eftir neinu. Maturinn var hvorki góður né vondur, enda staðurinn út úr fókusi matreiðsluhefða. Það bezta við hann var raunar rösk og vingjarnleg þjónusta íslenzkrar ættar.
Innbú er að mestu í kínverskum stíl, en matreiðslan að mestu austurindísk, mun feitari og þykkri en hin kínverska. Ofan á þessa þverstæðu leggst svo meiri þverstæða, sem felst í daðri við japanskar skreytingar og japanskan kafla í matseðli, þótt japönsk matreiðsla sé enn fjarlægari Thailandi en hin kínverska.
Inn af inngangi er hvítur og kaldur og skyndibitalegur básakimi, en vinstra megin er gengið fram hjá skenki í pagóðustíl inn í hlýlegan og rauðan Kínasal með miklu af pottablómum, kínverskum ljósakrónum, korkgólfi og virðulegum borðstofustólum. Japanskar sushi-auglýsingar stinga í stúf við stílinn.
Rækjuflögur komu úr pakka og voru bragðlausar. Krabbasúpa með spergli hafði daufan spergilkeim. Blaðlauks- og kjúklingasúpa var betri, kínverskrar ættar. Vorrúlla var vel gerð úr þunnu deigi, en með nánast engu innihaldi.
Rækjur staðarins voru smávaxnar dósarækjur. Djúpsteiktar voru þær bragðlausar, en hvorki ofhúðaðar né ofeldaðar. Snöggsteiktar á pönnu að thailenzkum hætti voru þær betri, vel kryddaðar, bornar fram með góðu grænmeti. Steiktar eggjanúðlur með rækjum og grænmeti voru bezti aðalrétturinn.
Bragðsterkt var seigt svínakjöt á spjóti, borið fram með gúrku- og laukhlunkum og þykkri hnetusósu. Betra var pönnusteikt svínarif í sterkri sambal-sósu að víetnömskum hætti. Steiktur kjúklingur var hálfþurr, borinn fram með indverskum kasjú-hnetum og ostrusósu. Skemmtilega anískryddað, en of seigt var fimmkryddað lambakjöt, borið fram í kínverskum leirpotti.
Ferskir ávextir voru frambærilegur eftirréttur, sennilega sá eini, sem ekki fól í sér ís. Kaffi var líka frambærilegt. Meðalverð þriggja rétta með kaffi er 3.000 krónur. Engu síðri eru margrétta veizluseðlar, sem fara niður í 1.600 krónur. Í hádeginu er meðalverð tveggja rétta 1.200 krónur og ódýrt og ómerkilegt hlaðborð úr hitakössum kostar 875 krónur.
Asía reynir að vera sitt lítið af hverju frá þessari stóru heimsálfu. Þegar menn reyna að vera bæði-og, verður útkoman stundum hvorki-né. Fókus fyrirfinnst ekki.
Jónas Kristjánsson
DV