Asía

Veitingar

*
Asía aflraunamanna

Kvöldmatur var vondur á Asíu við Laugaveg. Svínakjötið og lambakjötið var hvort tveggja ofsteikt og beinlínis seigt, svínakjötið á tréteinum undir þykku lagi af ótilgreindri sósu, sem huldi kjötið og vel það. Meira að segja kekkjuð hrísgrjónin voru léleg eins og þau væru upphituð eða frískuð undir heitri vatnsbunu. Bezt var sterka hoisin sojabaunasósan kínverska, sem fylgdi lambakjötinu í hóflegu magni.

Ég borða yfirleitt það, sem mér er rétt, sérstaklega þjóðlega rétti úr ýmsum heimshornum, jafnvel íslenzka, en hér gafst ég upp. Samt voru viðskiptavinir utan ferðamannatímans að meirihluta Austurasíufólk. Staðurinn ætti því að vera góður, samkvæmt reglunni um, að slíkt fólk hljóti að laðast að ekta stöðum, sem minna á heimalandið. En ég gat með engu móti séð, hvað slíkir gestir sáu í matreiðslunni.

Ég kann vel við indónesíska og japanska matreiðslu og ýmsar kínverskar og indverskar matreiðslur, en ekki þessa. Hún líkist engri þeirra, ættuð einhvers staðar af skaganum, þar sem eru Víetnam og Laos, Kampútsea og Taíland, Malasía og Burma. Ég hef ekki komið til þessara landa og er ekki nógu kunnugur fáséðum veitingahúsum þessara landa í heimsborgunum til að staðsetja matreiðsluna.

Samkvæmt fræðibókum er matreiðslan í ofangreindum löndum öðruvísi en matreiðslan í veitingahúsinu Asíu, mun fínlegri og tillitssamari við hráefni. Meðan annað kemur ekki í ljós verð ég að álykta, að matreiðslan hér sé ekki etnísk, heldur einfaldlega vond. Kokkurinn sé á sérleið, sem stríði gegn einföldum lögmálum í matreiðslu, hvar sem hún er í heiminum.

Íslenzkir súmókappar og aflraunamenn voru staðarsómi í hádeginu, þar sem þeir gátu étið nægju sína úr hitakassaborði á 950 krónur. Ekki leizt mér á hnausþykkar sósur og sízt á djúpsteiktar rækjur, sem voru belgdar af miklu hveiti og mikilli feiti. Hins vegar mátti fá frambærilegan freðfisk með grænmeti, hvort tveggja steikt í hófsamri ostrusósu og kostaði bara 750 krónur. Sá ljósi punktur gaf eina stjörnu.

Jónas Kristjánsson

DV