Áður en bankar, hlutabréf og gengi hrundu í Suðaustur-Asíu í nóvember hafði árum saman verið í tízku að tala um austræn gildi, sem væru betri en vestræn. Ritaðar voru lærðar bækur, þar sem því var haldið fram, að Asíulönd hefðu betri skipan þjóðfélagsmála.
Fremstir í flokki fóru ráðamenn sumra þessara ríkja, sem sögðu það aðal síns fólks að kunna að vinna saman í stað þess að keppa. Og að hlýða yfirboðurum sínum í stað þess að sérhver hefði sérskoðanir á öllu. Þeir röktu velgengni þjóða sinna til kenninga Konfúsíusar.
Ekki þarf að hverfa aftur til fyrri alda til að finna fordæmi fyrir efnahagskerfi svokallaðra efnahagstígrisdýra í Suðaustur-Asíu. Þegar upp var staðið í hruninu, kom í ljós, að þarna hafði verið rekið hagkerfi, sem minnti mjög á íslenzkt hagkerfi eftirstríðsáranna.
Við þekkjum leyndarstefnuna. Stjórnvöld í ríkjum Suðaustur-Asíu reyndu að halda gerðum sínum og fyrirætlunum leyndum fyrir almenningi. Stjórnendur fyrirtækja gerðu hið sama gagnvart hluthöfum og lánardrottnum. Og bankarnir gagnvart eigendum sparifjár.
Fjölmiðlunina þekkjum við líka. Austrænir fjölmiðlar gerðu sitt til að rugga ekki bátnum. Þar hafa ráðamenn fjölmiðla jafnan verið inni á gafli hjá stórhvelum stjórnmála, efnahagsmála og fjármála. Þeir voru aðilar að þagnarbandalagi hinna austrænu gilda.
Í nafni hinnar heilögu samvinnu að hætti Konfúsíusar var þagað um alla hluti, samsæri stjórnvalda og fyrirtækja gegn almenningi, samsæri stjórnvalda og banka gegn eigendum sparifjár og samsæri stjórnvalda og fjölmiðla gegn vestrænni upplýsingaskyldu.
Sterkustu samlíkinguna við Ísland sjáum við hjá bönkum Suðaustur-Asíu. Þeir hafa meira eða minna verið undir áhrifavaldi stjórnvalda, sem hafa hvatt þá til að lána gæludýrum stjórnmálanna ótrúlegustu fjárhæðir, sem núna eru að mestu farnar í súginn.
Þetta minnir á uppgang og hrun Sambands íslenzkra samvinnufélaga. Gæludýrin höfðu óheftan aðgang að fjármagni og gátu síðan ekki staðið undir því, þegar kom að skuldadögunum. Fyrirtækin hrundu í báðum tilvikum og ríkisvaldið kom bönkunum til hjálpar.
Íslenzk stjórnvöld björguðu Landsbankanum með því að dæla í hann gjafafé, svo að hann gæti skriðið upp úr gjaldþroti Sambands íslenzkra samvinnufélaga og annarra pólitískra gæludýra, sem bankinn hafði lánað, af því að stjórnvöld höfðu sagt honum að gera það.
Svipað hafði gerzt í Bandaríkjunum fyrir tæpum áratug, er margir sparisjóðir hrundu og fengu stuðning ríkisins til að halda lífi. Þannig hafa skattgreiðendur verið látnir hlaupa undir bagga stuttbuxna-kapítalista í Bandaríkjunum, í Suðaustur-Asíu og á Íslandi.
Reynslan frá Vesturlöndum hafði þannig sýnt, að hin svonefndu asísku gildi eru þar ekki óþekkt fyrirbæri. Þau hafa skotið upp kollinum í Bandaríkjunum og verið fyrirferðarmikil á Íslandi. Við þekkjum hin asísku gildi og þau eru ekki asísk frekar en íslenzk minkabú.
Asísk gildi er fínt orðbragð um ríkisstýrða spillingu yfirstéttarinnar, leyndarhjúp gagnvart fjölmiðlum, fjármálasukk, einkavinavæðingu og ódýr lán handa gæludýrum kerfisins. Tígrisdýrin í austri reyndust að lokum ekki vera annað en hver önnur pappírstígrisdýr.
Markaðshagkerfi stenzt nefnilega ekki án hinna gamalkunnu gilda Vesturlanda, þar sem mestu máli skipta upplýsingaskylda, þjóðfélagsgagnrýni og valddreifing.
Jónas Kristjánsson
DV