Beinagrind af kjúklingi milli súlu og veggjar, sem ég sá í hádegismat á Aski, Laugavegi 28, var þar enn um kvöldmatarleytið daginn eftir. Var þetta athyglisvert dæmi um sóðalegt yfirbragð þessarar lélegu matstofu, sem þó hefur haft kjark til að sækja um vínveitingaleyfi.
Nýju eigendurnir hafa ekki enn tekið til hendinni á Aski, Laugavegi 28, þegar þessi grein er rituð. Allt er þar enn við sömu gallana, sem hafa gert mig fráhverfan heimsóknum. Eru eigendurnir nýju þó líklegir til átaka, vonandi frekar fyrr en síðar.
Innréttingar eru stórkarlalegar. Súlur úr grófum við minna á Halta hanann, en eru þó hvergi nærri eins smekklegar. Á Aski vantar samræmi í stílinn. Strigi og steindir gervigluggar eru á veggjum.
Í stórum dráttum virðist þetta fremur óvandað, þreytulegt og vekur jafnvel óþægilegan grun um óþrifnað.
Opið er inn í eldhús og heyrist þaðan hvimleiður hávaði, svo sem hróp og köll milli gjaldkera og matsveina. Fyrir gesti er þetta ónæðissamt og eykur óþægindatilfinninguna frá umhverfi og andrúmslofti Asks.
Afgreiðsla á kassa er fremur kuldaleg og ónákvæm. Ég pantaði litla skammta af tveimur fiskréttum, en var látinn borga fyrir stóra. Það leiðréttist á staðnum, en hitt uppgötvaðist ekki fyrr en of seint, að ég hafði verið látinn borga einn skammt af hrásalati þrisvar sinnum.
Alger sjálfsafgreiðsla er á Aski eins og á Esjubergi. menn rogast fram og aftur með bakka sína. Eru báðir þessir staðir þó mun dýrari en Hornið og Laugaás, sem veita þó matarþjónustu til borðs og bjóða upp á mun betri mat.
Rósinkálssúpa
Rósinkálssúpa var innifalin í verði aðalrétta á matseðli dagsins, þegar ég kom á Ask í hádeginu. Þetta var hversdagsleg hveitisúpa, hvorki góð né vond. Verðið er 650 krónur, ef hún er keypt sérstaklega.
Kjúklingapottréttur
Kjúklingapottréttur með hrísgrjónum og salati var nokkurn veginn sæmilegar. Dósasveppirnir voru ekki óhóflega eldaðir, en hrísgrjónin voru í meira lagi ofsoðin. Hrásalatið var gott og borið fram með skemmtilega sterkri sósu. Hveitisósan var þykk og miður lystug. Kjúklingarnir sjálfir voru nokkuð mikið soðnir, en eigi að síður í lagi. Verðið er 3.600 krónur með súpu innifalinni.
Buff
Buff Lindström með spældu eggi var vel heppnað hakk, ekki steikt meira en svo, að það var rautt að innanverðu. Með fylgdi sama hrásalat og áður var lýst, spælt egg og tvær hvítar kartöflur, allt frambærilegt. Verðið er 3.000 krónur með súpu innifalinni.
Kótiletta
Glóðarsteikt kótiletta var meðal þess, sem valið var af fastaseðlinum í kvöldheimsókninni. Hún var ekki merkileg, enda mjög feit. Verðið er 770 krónur ein kótiletta og 2.200 krónur sem heill skammtur, í báðum tilvikum án meðlætis.
Ef við gerum ráð fyrir ferns konar meðlæti til að búa til aðalrétt, t.d. með kartöflum, hrásalati, sósu og annað hvort hrísgrjónum eða einum öðrum bragðauka, yrði verð aðalréttarins 4.000 krónur. Verð einnar kótilettu með sams konar meðlæti yrði þá 1.670 krónur sem forréttur.
Kjúklingur
Ask-kjúklingur var fremur vondur, enda þrælsteiktur og þurrlegur. Verðið er 1.980 krónur sem lítill skammtur og 3.740 krónur sem heill skammtur, hvort tveggja án meðlætis. Með tvenns konar meðlæti yrði litli skammturinn að forrétti á 2.880 krónur og með ferns konar meðlæti yrði heili skammturinn að höfuðrétti á 5.540 krónur.
Lambasteik
Lambasteik Hawai var ofsalega mikið pipruð steik með ananashring. Þetta var sæmilegasta hráefni, en nokkuð mikið steikt. Verðið er 2.550 krónur sem heill skammtur án meðlætis. Með ferns konar meðlæti yrði úr þessu aðalréttur á 4.350 krónur.
Turnbauti
Turnbauti var meyr, en bragðlaus, framreiddur miðlungi steiktur, þótt beðið væri um hann mjög lítið steiktan. Verðið er 4.850 sem heill skammtur án meðlætis. Með ferns konar meðlæti yrði úr honum aðalréttur á 6.650 krónur.
Pönnukökur
Kínversk pönnukaka var ómerkileg og köld, en ekki beinlínis vond. Verðið er 670 krónur ein pönnukaka og tvær á 1.100 krónur, hvort tveggja án meðlætis. Með tvenns konar meðlæti yrði eina pönnukakan að forrétti á 1.570 krónur og með ferns konar meðlæti yrðu pönnukökurnar tvær að aðalrétti á 2.900 krónur.
Fiskur
Innbakaður fiskur orly var sérstaklega vondur, grimmileg steiktur af kokkum, sem virtust hata fisk. Hann var afgreiddur hálfkaldur. Verðið er 400 krónur sem lítill skammtur og 1.000 krónur sem heill skammtur, hvort tveggja án meðlætis. Með tvenns konar meðlæti yrði litli skammturinn að forrétti á 1.300 krónur og með ferns konar meðlæti yrði heili skammturinn að höfuðrétti á 2.800 krónur.
Meiri fiskur
Djúpsteiktur fiskur í brauðmylsnu var annað dæmi um djúpa óbeit eldhússins á fiski. Þetta var grjóthörð plata, sem var á bragðið eins og léleg feiti. Hún var afgreidd hálfköld. Verðið er 350 krónur sem lítill skammtur og 1.000 krónur sem heill skammtur, hvort tveggja án meðlætis. Með tvenns konar meðlæti yrði litli skammturinn af forrétti á 1.250 krónur og með ferns konar meðlæti yrði heili skammturinn að höfuðrétti á 2.800 krónur.
Pitsa
Pitsa Ask-speciale var of þykk og of hörð, of brennd og of köld. Þar á ofan fannst ekkert oregano né annað skylt kryddbragð. Þetta var versta pitsa ævinnar og er þá ekki lítið sagt. Verðið er 2.200 krónur án meðlætis.
Meðlæti
Ég prófaði ýmislegt meðlæti, sem gestir panta og borga sérstaklega.
Hrísgrjónin voru alveg köld og ekki góð á bragðið. Skammturinn kostar 400 krónur.
Hvítu kartöflurnar voru einnig alveg kaldar og lítt lystugar. Verðið er 350 krónur.
Sveppirnir voru úr dós. Verðið 440 krónur.
Paprikan var ný og bragðaðist sæmilega. Verðið er 220 krónur.
Franskar kartöflur voru kaldar, en ekki brenndar, alveg ætar. Verðið er 450 krónur.
Hrásalat var sómasamlegt, jafnvel gott. Verðið er 450 krónur.
Béarnaise-sósa var þykk og vond. Verðið er 700 krónur.
Kryddsmjör var tæpast eðlilegt á bragðið, ekki veit ég hvers vegna. Verðið er 450 krónur.
Meðalverð kartöfluskammta er 400 krónur, salata 500 krónur, hrísgrjóna og ýmissa bragðauka 400 krónur. Samtals ætti því ferns konar meðlæti að kosta 1.800 krónur aðmeðaltali og tvenns konar 900 krónur að meðaltali.
Til þess að gera verð “heilla skammta” á Aski sambærilegt við verð, sem gefið er upp á öðrum veitingahúsum, er rétt að bæta við það 1.800 krónum. Er þá gert ráð fyrir kartöflum, hrásalati, sósu og hrísgrjónum eða einum bragðauka á borð við sveppi, lauk eða papriku.
Þess vegna bæti ég 900 krónum við verð “lítilla skammta” til að finna forréttaverð og 1.800 krónum við verð “heilla skammta” til að finna aðalréttaverð.
Eftirréttaleysi
Kaffi eftir mat er selt á 400 krónur og má missa sig. Ekki er boðið upp á neina eftirrétti, nema kannski tertur nokkrar í glerskáp.
Tvírétta máltíð með kaffi af matseðli dagsins ætti að kosta 2.800-4.300 krónur. Á fastaseðlinum verða upphæðirnar hærri. Meðalverð forrétta og smárétta með tvenns konar meðlæti er um 1.900 krónur. Meðalverð aðalrétta með ferns konar meðlæti er um 4.800 krónur. Tvírétta máltíð með kaffi af matseðli dagsins ætti því að kosta að meðaltali 6.700 krónur.
Aðalréttur á vínveitingahúsunum Sögu, Loftleiðum, Holti, Nausti og Borg kostar að meðaltali 7.700-8.500 krónur. Á Esjubergi og Aski kostar hann 4.700 krónur. Á Horninu og Laugaási kostar hann hins vegar ekki nema 3.600 krónur.
Það er athyglisvert, að milliverðsstaðirnir Esjuberg og Askur veita ekki þjónustu til borðs. Það eykur tilfinningu mína fyrir því, að endurbóta og verðlækkunar þurfi við á báðum stöðum.
Matseldin á Aski fær þrjá í einkunn og umhverfið þrjá. Vegin meðaleinkunn veitingastofunnar er tveir, lægsta einkunn, sem hingað til hefur verið gefin.
Jónas Kristjánsson
Vikan