Askur hefur alltaf verið alþýðlegur og viðkunnanlegur staður. Í gamla daga var hann virðulegur skyndibitastaður við Suðurlandsbraut ofanverða, en hefur um skeið verið alvörustaður við brautina neðanverða, í Skeljungshúsi. Þar kemur þverskurður af þjóðinni til að nærast.
Við eitt borðið eru kaupsýslumenn með útlendinga. Við næsta borð er faðir með börn. Við þriðja borð er einmana maður með heila rauðvínsflösku á borðinu. Við hið fjórða eru snyrtiklæddir viðgerðarmenn einhvers þjónustufyrirtækis. Við fimmta er ferðafólk úr sjávarplássi. Og við sjötta er vísitölufjölskyldan mætt.
Þannig er Askur, hin stéttlausa matstofa, hvorki fín né ófín, hvorki dýr né ódýr, hvorki nýstárleg né gamaldags. Hún er svo hlutlaus, að hún er einn fárra staða í bænum, þar sem þægilegt er fyrir einstaklinga að borða.
Staðurinn er samt ekki án sérkenna. Þau eru í matnum. Hann er í fyrsta lagi góður. Og í öðru lagi er hann laus við að vera frumlegur. Hann er bara eins og fólk býst við og vill, að hann sé, enda virðist matseðillinn vera óbreytilegur frá árstíð til árstíðar, ári til árs. Á hverjum degi er þó fiskur og kjöt dagsins í boði.
Askur er fremur stór og opinn, búinn hagkvæmum og vönduðum húsgögnum, sem hafa ekki látið á sjá. Harðviðarrammi er utan um plastplötur borðanna. Á neðra gólfi er eldhús, salatbarð og nokkur borð, en meginsalur á efra gólfi. Þar eru langsófar meðfram veggjum, lítil borð og stólar á móti. Þetta minnir á franskt brasserí.
Askur siglir meðalsjó í verðlagi. Hann býður heitt hádegishlaðborð á 1130 krónur, heitt sunnudagssteikarborð á 1550 krónur og fiskrétt dagsins á 1090 krónur, allt að súpu og köldu salatborði meðtöldu. Meðalverð þriggja rétta af matseðli er um 2190 krónur. Vínlisti er stuttur og vel valinn, með Gewurztraminer og Hugel í hvítu, Santa Cristina og Barthez í rauðu.
Rjómalöguð spergilkálsúpa dagsins var fremur góð hveitisúpa. Betri reyndist rjómalöguð blaðlaukssúpa dagsins. Ýsuflak dagsins var mátulega eldað, hlaðið miklu af rækjum, fljótandi í góðri gráðostsósu, fyrirtaks réttur. Í annað skipti var ýsluflak dagsins líka gott, í það skiptið með rækjum og hörpufiski, svo og sítrónusósu.
Ég hef ekki prófað að láta skera fyrir mig steikur í sunnudagshádegi. En ég hef séð heita hádegisborðið og fannst það ekki girnilegt í hitakössum. Salatborðið hef ég hins vegar notað nokkrum sinnum og finnst það gott. Ég sakna þó sveppa. Grænmetið er undantekningarlaust frísklegt. Í eitt skiptð voru þar smávaxnir tómatar, rifinn ostur og fjórar gerðir af sósum, auk hefðbundinna þátta.
Svínarif með barbecue-sósu eru sérgrein, afar matarleg, enda fá gestir sérstakar svuntur til að óhreinka sig ekki. Nautasteik var líka fremur góð, lítið steikt og vel meyr, borin fram með sveppum og kryddsmjöri. Boðnar eru fjórar útgáfur af nautasteik og fimm af lambasteik.
Eftirréttir eru góðir á Aski, eplabaka með litlum eplateningum og hnetubaka, báðar með ís og þeyttum rjóma.
Askur hefur fundið sér hillu og heldur sig við hana. Fólk kemur þangað til að nærast á mat, sem er eins á bragðið og hann var síðast og þar áður, aldrei misheppnaður. Hér er allt í traustum og föstum skorðum.
Jónas Kristjánsson
DV