Skortur á hreinu vatni er eitt stærsta vandamál mannkyns. Nærri milljarð manna vantar aðgang að öruggu drykkjarvatni. Á hverju ári deyr hálf önnur milljón barna af þess völdum. Sums staðar, einkum í Rómönsku Ameríku, hafa fégráðugar ríkisstjórnir selt einkafyrirtækjum vatnsréttindi. Hafa þannig kallað hörmungar yfir íbúana. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti nýlega, að aðgangur að hreinu vatni teldist til mannréttinda. 122 aðildarríki studdu ályktunina. Hjá sátu 41 ríki, þar á meðal Bandaríkin og Ísland. Engar skýringar hafa fengizt á hjásetu Íslands. Líklega stafar hún af ást ríkisstjórnarinnar á einkavæðingu.