Ástarjátning

Greinar

Einu sinni týndi ég gemsanum í Rauðhólum. Fékk lánaðan annan, reið alla leiðina aftur og hringdi stöðugt í týnda tólið. Viti menn, veikt tíst barst úr moldarbarði. Ég fór af baki, tók varlega upp dýrgripinn, þurrkaði af honum moldina og stakk honum í brjóstvasann, glaður og reifur í hjarta.

Þetta rifjaðist upp í gær, þegar ég gleymdi símanum heima og var alveg bjargarlaus fram eftir morgni. Sambandið við umheiminn fór meira eða minna úr skorðum og komst ekki í samt lag aftur fyrr en mörgum klukkustundum eftir að ég hafði gert mér ferð til að sækja símann og minnið í honum.

Gemsinn er eitt mikilvægasta galdratæki nútímans. Hann gerir okkur kleift að vinna mál margfalt hraðar en áður tíðkaðist. Svo slökkvum við bara á honum og látum skilaboðaskjóðuna taka við, þegar við þurfum að einbeita okkur. Ég held, að nútímarekstur standi og falli með þessu litla hjálpartæki.

Ágæt saga um mikilvægi gemsans birtist fyrir nokkrum árum í Mogganum, þegar íslenzk kona, sem þá bjó á Ítalíu, skýrði frá athugunum sínum á mikilvægi símans fyrir ítölsku stórfjölskylduna, sem var í þann veginn að sundrast, af því að börnin voru úti um allar trissur að sigra heiminn.

Þá kom gemsinn. Mamman situr við símann heima í móðurgarði í Perugia og fær fréttir frá Antonio um, að hann sé að stíga úr lestinni í Milano. Hún flytur þær síðan til Mario, sem er að fara á fund í Torino, sem fréttist síðan til Alessöndru, sem er að fara í flug til Palermo og tekur bíl á vellinum.

Gemsinn hefur sameinað ítölsku stórfjölskylduna á nýjan leik. Hér hefur hann eflt fjölskyldubönd ekki síður en viðskiptabönd. Hann er orðinn svo samofinn öllum þáttum í samskiptum fólks, að þjóðfélagið færi úr límingunum, ef allir gemsar landsins yrðu skyndilega sambandslausir.

Gemsinn man eftir öllum númerum, sem við þurfum á að halda og minnir á tímasetningar. Hann er ritari, sem tekur við upplýsingum, þegar við erum upptekin, og kemur þeim til skila. Suma þeirra má tengja öðru galdratæki, tölvunni, sem er annar hornsteinn hagkerfis og þjóðfélags nútímans.

Auðvitað tekur tíma að læra á gemsann. Rétt eins og maðurinn í jarðarförinni, sem svaraði kallinu og hvíslaði í símann: “Ég get ekki talað við þig núna, af því að ég er að bera kistuna út.” Sumir hafa raunar enn ekki lært að umgangast síma yfirleitt og svara alltaf kalli, þótt kúnnarnir bíði.

Gemsinn er hvorki góður né vondur. Hann er bara tæki, sem við getum lært að nýta í lífi og starfi. Líklega er þó of langt gengið hjá mér að umgangast gemsann eins og ástvin.

Jónas Kristjánsson

DV