Átján mánaða lömun

Greinar

Átján mánaða starfslok biskupsins yfir Íslandi leysa ekki eitt þungbærasta vandamálið, sem biskupinn nefndi í afsagnarræðu sinni á prestastefnunni í fyrradag. Þessi langdregnu starfslok framlengja stjórnarandstöðuna í þjóðkirkjunni og lama starfshæfni hennar.

Það er rétt hjá biskupi, að einkum er það eins konar stjórnarandstaða í röðum presta, sem hefur þrengt að honum. Andstaðan er eldri en fréttir af þeim gömlu málum, sem urðu biskupi að lokum að falli, en kunna að hluta að stafa af vitneskju presta um þau.

Andstæðingar biskups meðal presta eru yfirleitt meiri harðlínumenn í trúmálum en hann. Þeir eru heldur ekki sáttir við veraldlegar áherzlur hans og bera hann saman við meiri kennimenn í röðum forvera hans. Þessi atriði og önnur slík skýra þó ekki alla andstöðuna.

Efasemdir ýmissa presta um málstað biskups í áreitnismálunum bætast ofan á annan ágreining og valda því, að hann nýtur ekki lengur víðtæks trausts. Þetta gerir honum ókleift að leysa óskyld ágreiningsmál innan kirkjunnar, svo sem dæmi Langholtssóknar sýnir.

Biskup varð fyrir því óláni að fá til liðs við sig þekktan slagsmálalögmann að amerískum hætti. Það varð til þess, að biskup braut í fyrsta lagi trúnað við Langholtssóknarfólk og höfðaði í öðru lagi andvana meiðyrðamál gegn konunum, sem höfðu kært hann innan kirkjunnar.

Biskupinn varð að biðjast afsökunar á trúnaðarbrotinu og dró til baka kæruna fyrir meiðyrði. Eftir það tvennt mátti ljóst vera, að honum væri ekki lengi sætt í embætti. Hann hefur nú tekið þeim afleiðingum, en gefið sér um leið átján mánaða starfslokatíma.

Ekki þarf að hafa neina efnislega skoðun á neinum þeim málum, sem hafa orðið biskupi að falli, til að sjá, að hagsmunum þjóðkirkjunnar er bezt borgið með því að biskupinn greini milli sinna eigin hagsmuna og hagsmuna kirkjunnar. Á því hefur orðið mikill misbrestur.

Með átján mánaða frestun framlengir biskup tímann, sem þjóðkirkjan er lítt starfhæf. Hann mun sigla gegnum formsatriði embættisins, en ekki setja niður neinar deilur, af því að kirkjunnar menn hlusta því aðeins á hann, að þeim þóknist það hverju sinni.

Í leiðurum þessa blaðs var í fyrra í tvígang kvartað yfir uppivöðslusemi og orðbragði nokkurra presta í garð biskups. Það var áður en áreitnimálið, Langholtsdeilan og slagsmálaglaði lögmaðurinn gerðu hann óstarfhæfan og röskuðu stöðu þjóðkirkjunnar í samfélaginu.

Fjölmiðlar hafa yfirleitt farið varlega í fréttaflutningi af málum biskups, einkum vegna virðingar við biskupsembættið sem slíkt. Samt vandar biskup þeim ekki kveðjurnar að lokum og staðfestir um leið hið fornkveðna, að heppilegt er að kenna sögumanni um ótíðindin.

Staða þjóðkirkjunnar verður veik á starfslokatímanum. Ekki bætir úr skák, að margir prestar vilja skerpa yfirráð kennimanna yfir safnaðarmálum á borð við þau, sem hafa einkennt Langholtssókn. Þjóðkirkjan hneigist að breytingu úr safnaðakirkju í kennimannakirkju.

Vandamál þjóðkirkjunnar ýta málum í átt til þeirrar rökréttu niðurstöðu, að skilið verði milli ríkis og kirkju, svo að þjóðfélagið axli ekki lengur ábyrgðina.

Jónas Kristjánsson

DV