Að tilhlutan nefndar um kjördæmabreytingar hefur verið lagt til, að landsbyggðin fái einn milljarð á ári næstu árin fyrir aukinn atkvæðisrétt íbúa Reykjavíkur og Reykjaneskjördæmis. Þetta er umfangsmesta verzlun með atkvæðisrétt, sem átt hefur sér stað hér á landi.
Til þess að ná sátt í kjördæmanefndinni um jöfnun atkvæðisréttar var samþykkt í henni að fá skipaða aðra nefnd um vanda landsbyggðarinnar. Sú nefnd hefur nú skilað áliti, sem felur í sér milljarð á ári í sérstakar aðgerðir til að jafna búsetuskilyrði í landinu.
Þegar formaður nefndarinnar segir bláeygur, að ekkert innra samhengi sé í þessu ferli og að engin verzlun hafi átt sér stað, er hann vísvitandi að fara með rangt mál og niðurlægja sjálfan sig sem vitsmunaveru. Verzlunin er uppi á borðum og í allra augsýn.
Skynsamlegt getur verið að kaupa framfarir á þennan hátt til þess að fá um þær meiri sátt. Hrossakaup geta verið eðlileg aðferð til að koma málum fram, þegar ekki er verið að fela neitt fyrir fólki. Því er óþarfi að vera með ólíkindalæti út af niðurstöðu nefndanna tveggja.
Landsbyggðin hefur haft frumburðarrétt umfram þéttbýlið í vægi atkvæða. Hún er nú að selja megnið af þessum frumburðarrétti fyrir peninga. Menn gátu ekki staðið gegn jöfnun atkvæðisréttar, en heimtuðu að fá nokkra milljarða fyrir sinn snúð og munu fá þá.
Húshitunarkostnaður verður jafnaður á þann hátt, að hann verði “hvergi meiri en hjá meðaldýrum hitaveitum”, eins og það er fágætlega orðað í tillögunni. Markaðslögmálum verður kippt úr sambandi, svo að þau hvetja ekki lengur til sparnaðaraðgerða í húshitun.
Framlög verða aukin til námskostnaðar dreifbýlisfólks og afsláttur veittur af endurgreiðslum þeirra, sem setjast að á landsbyggðinni að námi loknu. Munu þeir greiða 3,75% af útsvarsstofni í stað 4,75%. Ennfremur verður aukin endurgreiðsla á ferðakostnaði sjúklinga.
Þar sem fækkun íbúa hefur verið mest verða vegaframkvæmdir auknar, þar á meðal borun fjalla. Jafnframt eiga sveitarfélög á þessum svæðum að fá meira af sameiginlegu skattfé, án þess að heildarskattheimta aukist, sem þýðir, að önnur sveitarfélög fái minna.
Þetta er verzlun, sem ekki þarf að rökstyðja á annan hátt en sem verzlun, þar sem hluti landsmanna fær atkvæðisrétt, sem hann sækist eftir, og annar hluti fær fé og þjónustu, sem hann sækist eftir. Marklaust er að halda fram, að þetta sé líka þjóðhagslega hagkvæmt.
Samt rennur bullið upp úr formanni nefndarinnar, sem segir sveitarfélög í þéttbýli spara 35 milljónir á hverjum þeim, sem ekki flytst þangað. Þá tekur hann ekki tillit til útsvars og annarra gjalda, sem nýir íbúar sveitarfélaga leggja af mörkum eins og aðrir.
Þjóðhagslega er hagkvæmt, að byggðin í landinu þjappist saman og njóti sparnaðar af aukinni nálægð fólks. Fjölgun íbúa á höfuðborgarsvæðinu er þar að auki til þess fallin að draga úr fólksflótta til útlanda og er þannig eina raunhæfa byggðastefnan hér á landi.
Þótt þjöppun byggðar sé þjóðhagslega hagkvæm, þarf hún þar með ekki að vera pólitískt hagkvæm. Meiri sátt er milli manna í landinu í heild, ef reynt er að setja upp byggðagildrur til að fá fólk ofan af því að flytja úr litlum plássum í stærri. En það eru samt byggðagildrur.
Fulltrúar dreifbýlisins vilja halda kjósendum sínum í gíslingu og fulltrúar þéttbýlisins vilja aukinn atkvæðisrétt kjósenda sinna. Um þetta hefur nú verið verzlað.
Jónas Kristjánsson
DV