Atlaga að hag og heilsu

Greinar

Þeir, sem halda uppi verði á innlendu grænmeti, hafa oft verið sakaðir um að urða hluta framleiðslunnar til þess að halda uppi verðlaginu. Þeir hafa jafnan neitað slíku harðlega. Eigi að síður hefur oft komizt upp um þá og myndir hafa verið birtar því til sönnunar.

Einokunarhringur grænmetisdreifingarinnar hefur áreiðanlega látið urða grænmeti á afskekktum stöðum í skjóli nætur að þessu sinni eins og áður. Aðstæðurnar eru ákjósanlegri en nokkru sinni fyrr, því að samkeppni er gersamlega horfin og einokun orðin alger.

Sjálfur viðurkennir landbúnaðarráðherra að gríðarleg fákeppni sé í grænmetisverzlun, en vill kenna samruna stórmarkaða um það. Því er svarað til, að raunverulega einokunin sé hjá Sölufélagi garðyrkjumanna, sem hefur 90% af heildsölu innlendu framleiðslunnar.

Lokaða kerfið er allt skipulagt að ofan í landbúnaðarráðuneytinu. Á þess vegum eru settir breytilegir tollar á innflutt grænmeti. Þeir byrja að rísa rétt áður en innlent grænmeti kemur á markaðinn og ná síðan mörg hundr-uð prósentum, jafnvel yfir þúsund prósentum.

Innan þessa lokaða kerfis leikur einokunarhringur grænmetisdreifingarinnar lausum hala. Með ofurtollum er hann verndaður fyrir samkeppni að utan. Framleiðendum grænmetis er refsað, ef þeir reyna að dreifa framleiðslunni utan hins lokaða söluhrings.

Afleiðingarnar eru ljósar og hafa verið mældar. Síðustu árin hefur grænmetisverð hækkað langt umfram vísitölu neyzluverðs. Kílóverð einstakra tegunda er komið upp fyrir kílóverð á kjöti og fiski. Hversdagsgrænmeti á borð við papriku kostar oft yfir 700 krónur í búð.

Grænmeti, sem nágrannar okkar líta á sem mat, flokkast hér sem skraut ofan á mat, af því að fólk hefur ekki ráð á að kaupa það sem mat. Þannig má flokka 700 króna papriku, sem oft er til sýnis í verzlunum til að ögra smælingjum, sem ekki hafa ráð á grænmeti.

Neytendur svara ofurtollunum og einokuninni með því að spara við sig grænmeti. Þessi afleiðing hefur einnig verið mæld. Komið hefur í ljós, að grænmetisneyzla Íslendinga er helmingi minni en nágrannaþjóðanna og helmingi minni en ráðlagt er í útlöndum.

Íslendingar munu ekki ná staðli Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar um hlutfall grænmetis í mat meðan lokað kerfi landbúnaðarráðuneytisins er við lýði. Afleiðingin af því kemur fram í röngum neyzluvenjum, óþarflega mikilli offitu og of miklu heilsuleysi fólks.

Ofurtollar landbúnaðarráðuneytisins eru kjarni vandans, studdir hinum meginþættinum, sem er einokun heildsölunnar, sem áfram er studd af fáokun í stórmörkuðum. Sameiginlega felur þetta kerfi í sér stórfellda árás kerfisins á pyngju og heilbrigði almennings.

Urðun grænmetis er toppventill kerfisins, framin á afskekktum stöðum í skjóli nætur, nauðsynleg til að upp gangi atlaga landbúnaðarráðuneytisins að fjárhag og heilsufari þjóðarinnar. Það er mjög við hæfi, að með urðun grænmetis sé farið eins og mannsmorð.

Ríkisvaldið kemur fram í afskræmdri mynd í máli þessu. Það víkur frá því meginhlutverki sínu að vernda þjóðina fyrir innri og ytri hættum og skipuleggur í staðinn samsæri gegn hag hennar og heilsu. Svona lagað kallast á íslenzku skipulögð glæpastarfsemi.

Að þetta kerfi skuli lifa og dafna áratugum saman má hafa til marks um botnlausan ræfildóm íslenzkra kjósenda, sem hafa látið umboðið í hendur forstokkaðra.

Jónas Kristjánsson

DV