Atlaga að húsbyggjendum.

Greinar

Stjórnvöld hafa farið svo offari í félagslegum byggingaframkvæmdum, að almenna húsnæðislásakerfið liggur eftir í rústum. Og svo virðist sem þessa stefnu eigi að herða enn frekar, unz allt framtak verður úr sögunni.

Fyrir síðustu húsnæðislög námu lán Byggingasjóðs einum fjórða hluta byggingarkostnaðar meðalíbúðar, en nú eru þau komin niður í einn sjötta hluta og fara stöðugt lækkandi. Með þessu er verið að drepa almenna húsnæðislánakerfið.

Alþýðubandalagsmennirnir Ólafur Jónsson, formaður Húsnæðismálastjórnar, og Svavar Gestsson félagsmálaráðherra komu nýlega í veg fyrir, að í reglugerð yrði upphæð almennra húsnæðislása tengd við verðbólguna í landinu.

Annars vegar er verið að byggja upp félagslegt kerfi, þar sem skömmtunarstjórar úthluta fámennum hópi 90% af kaupverði íbúðar. Hins vegar er verið að brjóta niður kerfi, þar sem allir fengu 23% af kaupverði íbúðar.

Í sjálfu sér er rétt að stefna að lánakerfi, þar sem Byggingasjóður, lífeyrissjóðir og lánastofnanir útvegi samtals 90-100% af kaupverði íbúðar. En slíkt kerfi á að vera fyrir alla, en ekki til að koma á fót embættum skömmtunarstjóra.

Eðlilegast hefði verið að hækka smám saman hin almennu lán Byggingasjóðs upp úr 23%, unz framangreindu markmiði væri náð, í stað þess að skera þau niður í 16% og stefna að enn frekari niðurskurði.

Til vara hefði hugsanleg millileið falizt í að þenja ekki út félagslega kerfið hraðar en svo að lán almenna kerfisins héldu verðgildi sínu. Þá hefði nægilegt tillit verið tekið til þeirra, sem vilja drepa framtak fólks.

Núverandi ríkisstjórn hefur margt gert rangt á stuttri ævi. En árás hennar á almenna húsnæðislánakerfið er eitt versta verk hennar.

Atlaga að eigin mannorði.

Komið hefur í ljós, að Arnmundur Bachmann, aðstoðarmaður Svavars Gestssonar félagsmálaráðherra, hefur beitt áhrifum sínum til að koma föður sínum í feitan bitling annars tveggja matsmanna við endursölu verkamannaíbúða.

Einnig hefur komið í ljós, að bitlingar þessir eru óþarfir og hafa bæði tímasóun og ferðakostnað í för með sér. Matið mætti fremja í tölvu, af því að það er bara útreikningur á vísitölubreytingum frá eldra mati.

Jafnvel þótt þessir bitlingar leiddu ekki til tjóns, sem þeir gera, er út í hött, að pólitískir forstöðumenn ráðuneyta misbeiti valdi sínu með þessum hætti. En það sýnir hugarfarið að baki hugsjónafroðunnar.

Svavar Gestsson sagði í viðtali við Dagblaðið, að gagnrýnin væri enn ein atlagan að mannorði sínu. Í þessu gætir nokkurs misskilnings ráðherrans, því að það er hann, en ekki sögumenn, sem hefur gert atlögu að eigin mannorði.

Rifrildið um, hvað raunverulega sé greitt í kostnað víð þessa bitlinga, skiptir engu máli í samanburði við hitt, að í fyrsta lagi eru þeir óþarfir og í öðru lagi eiga menn ekki að veita þá nánum ættingjum aðstoðarráðherranna.

Það er einmitt þetta, sem flestir hafa við stjórnmálamenn okkar aðathuga. Þeir koma hvarvetna fram útbelgdir af hugsjónum og umhyggju en eru svo í raun uppteknir af hagsmunum sínum og sinna. Þess vegna er mannorðið lítið.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið