Atlantsgjáin dýpkar

Greinar

Frakkar vinna 1562 stundir á ári og Bandaríkjamenn vinna 1877 stundir, hafa lengri vinnudaga, færri frídaga og mun styttra sumarfrí. Frakkar og fimm aðrar Evrópuþjóðir bæta sér þetta upp með því að hafa 7% meiri framleiðni og með því að leggja áherzlu á lífgæði utan vergrar landsframleiðslu.

Heilsa er betri í Vestur-Evrópu en í Bandaríkjunum, ævilíkur eru lengri og ungbarnadauði er minni. Hjartasjúkdómar og krabbamein hafa minni útbreiðslu. Evrópumönnum líður betur en Bandaríkjamönnum, enda nota þeir 16% landsframleiðslu til tekjujöfnunar meðan Bandaríkjamenn nota aðeins 11% hennar.

Trúarofstæki er útbreitt í Bandaríkjunum, en nánast óþekkt í Evrópu. 68% Bandaríkjamanna trúa, að djöfullinn sé til, og 45% trúa, að endurkoma Krists verði á allra næstu árum. Sömuleiðis er þjóðernisofstæki útbreitt í Bandaríkjunum, 98% telja sig þar þjóðernissinnaða, en aðeins 63% í Evrópu.

Bandaríkjamenn trúa á dauðarefsingu, en Evrópubúar hafa óbeit á henni. Morð eru fjórfalt fleiri á íbúafjölda vestan hafs en austan. 24% Bandaríkjamanna telja, að ofbeldi geti átt við í ýmsum aðstæðum, en aðeins 12% Kanadamanna hafa sömu skoðun, enda líkjast þeir Evópuþjóðum að flestu leyti.

Í Bandaríkjunum lokar yfirstéttin sig inni í vöktuðum hverfum og lokar 2% vinnufærra karlmanna í fangelsum. Af svertingjum á 20-34 ára aldri eru 12% í fangelsi. Svona sjúkt þjóðfélag gæti aldrei þrifizt í Evrópu, þar sem fíkn í áfengi og eiturlyf er talin vera veiki en ekki glæpur.

Ameríski draumurinn snýst um einstaklinginn, að hver sé sinnar gæfu smiður og að hver sé sjálfum sér næstur. Þessi draumur er á hröðu undanhaldi, því að ört fjölgar þeim, sem berjast um á hæl og hnakka án þess að geta lifað mannsæmandi lífi. En evrópski draumurinn er félagslegur og í örum vexti.

Evrópusambandið hefur tekið upp arfinn frá járnkönzlurunum Bismark og Erhard, sem lögðu áherzlu á félagslega velferð til að hafa sátt í þjóðfélaginu, líma það betur saman. Enda er velferðin miklu meiri í Evrópu en í Bandaríkjunum, þar sem margfalt hærra hlutfall fólks er undir fátæktarmörkum.

Evrópumenn spara fé, en Bandaríkjamenn ekki, heldur lifa á krít frá Kína og Japan. Evrópa hafa komið sér upp öflugasta gjaldmiðli heims, meðan dollarinn sígur. Evrópusambandið stækkar örum skrefum og fleiri vilja komast inn. Það hefur fengið nýja stjórnarskrá, sem ber af hinni bandarísku.

Evrópa og Bandaríkin eru gerólík samfélög. Bandaríkin eru ofbeldis- og einræðishneigð í alþjóðamálum, meðan Evrópa leitar sátta. Öll alþjóðamál nútímans snúast um þennan mun.

Jónas Kristjánsson

DV