DV hefur góðar heimildir fyrir, að Ísland stingi í augun í nýjustu afvopnunartillögum Sovétríkjanna fyrir þá sök, að vera alls ekki í tillögunum. Þær voru settar fram um daginn á fundum í Vínarborg, þar sem rætt er um samdrátt hefðbundinna vopna í Evrópu.
Í tillögum Sovétmanna er fallizt á vestrænar kröfur um, að samningssvæðið nái til Úralfjalla og Kákasus, það er að segja til alls Evrópuhluta Sovétríkjanna, gegn því, að á móti komi fjöldi eyja, sem fylgja Vestur-Evrópu. Ísland er ekki á skránni yfir þessar eyjar.
Þar má hins vegar sjá Færeyjar og Jan Mayen, auk Bjarnareyjar og Svalbarða, Azoreyjar og Madeiru, Mallorku og Kanaríeyjar, Sikiley og Sardiníu, svo og allar grísku eyjarnar. Í samanburði við Ísland er athyglisverðast, að hinar vestlægu Azoreyjar eru á listanum.
Þessar tillögur skipta okkur í sjálfu sér litlu. Þær varða ekki kjarnorkuvopn, sem hafa verið umræðuefni hér á landi, heldur hefðbundin vopn, er við höfum lítið látið okkur varða. Meira máli skiptir, að þær gera ekki ráð fyrir, að Ísland sé hluti Vestur-Evrópu.
Við höfum sjálf átt í erfiðleikum með að finna okkur stöðu í samfélagi nútímans. Stundum teljum við okkur Evrópuþjóð og jafnvel eina af Norðurlandaþjóðunum. Stundum höfum við litið meira vestur um haf, einkum er Bandaríkin hafa verið efst á viðskiptalista okkar.
Þessi umræða um stöðu okkar hefur blossað upp að nýju vegna hugleiðinga um þátttöku í Evrópubandalaginu. Margir telja okkur brýnt að ganga í bandalagið, þótt ekki sé nema til að koma í veg fyrir, að innganga Norðmanna taki frá okkur fiskmarkaði í Evrópu.
Aðrir telja okkur farsælla að bindast ekki voldugum nágrönnum of sterkum böndum. Það færir völd og ábyrgð frá smáfuglum eins og okkur til stórhvelanna í Bruxelles. Það gæti líka þrengt sjóndeildarhring okkar, sem þarf helzt að ná til Norður-Ameríku og Austur-Asíu.
Hér í leiðara DV var fyrr í vikunni bent á, að ýmsir kostir fylgja sérstöðu og sjálfstæði í smæðinni. Sumir þeirra reiknast í beinhörðum peningum, svo sem við getum lært af ýmsum stórauðugum smáríkjum í Evrópu, Luxemborg, Lichtenstein og San Marino.
Í valdamiðstöðvum heimsveldanna tveggja hefur sérstaða Íslands nægt til samkomulags um einn leiðtogafund í Höfða. Að baki liggur tilfinning fyrir, að Ísland sé hvorki hluti Evrópu né Ameríku, heldur eyja í Atlantshafi, hæfilega fjarri ströndum meginlandsins.
Sama hugsun liggur að baki afvopnunartillögum Sovétríkjanna í Vínarborg. Þar eru dregin skil milli annars vegar evrópskra eyja á borð við Færeyjar, Madeira og Azoreyja, og hins vegar Atlantshafseyjar á borð við Ísland, sem situr á Mið-Atlantshafshryggnum.
Raunar sitjum við sagnfræðilega á yzta árangri þúsund ára gamallar útþenslutilraunar frá Evrópu, sem náði yfir Færeyjar, Ísland og Grænland til Vínlands. Í nútímanum er vel við hæfi að varðveita hinn víða sjóndeildarhring, sem einkenndi landnámstímann.
Fyrir þúsund árum var Guðríður Þorbjarnardóttir mesta heimskona veraldar, er hún átti barn í Ameríku, gifti sig í Grænlandi, og fór í pílagrímsferð til Rómar, áður en hún settist í helgan stein heima á Íslandi. Slík heimssýn hentar okkur enn í dag betur en evrópsk sýn.
Hugmyndin um Ísland sem Atlantsríki, er sé aðskilið frá Evrópu og Ameríku, er freistandi grundvöllur endurmats á stöðu okkar í síbreytilegum umheimi.
Jónas Kristjánsson
DV