Átta af hverjum tíu

Greinar

Átta af hverjum tíu lögmönnum og lögmannafulltrúum landsins hafa ritað undir áskorun til Alþingis um að lögfesta breytingar á hinum illræmdu skaðabótalögum frá 1993. Í aðeins fimm daga söfnunarátaki náðust undirskriftir 220 lögmanna af um 270-280 í landinu.

Fáir þessara lögmanna hafa umtalsverða hagsmuni af skaðabótamálum, sem þeir reka gegn tryggingafélögunum í umboði fólks, sem tryggingafélögin hafa leikið grátt í viðskiptum. Flestir þeirra hafa bara réttlætistilfinningu fyrir því, að siðlausum lögum verði breytt.

Tryggingafélögin eru öflugar stofnanir í innsta kjarna valdakerfisins. Dómsmálaráðherra lét starfsmann þeirra semja frumvarp, sem formaður allsherjarnefndar Alþingis tók að sér að fá staðfest. Þetta tókst þessum framangreindu umboðsmönnum tryggingafélaganna.

Alþingismenn höfðu ekki sér til afsökunar, að málið væri ekki nógu vel kynnt. Í fjölmiðlum komu þá fram rækilegar upplýsingar, sem hefðu átt að nægja til að stöðva framgang frumvarpsins, sem hafði þann eina tilgang að magna tekjur tryggingafélaganna sem mest.

Eftir uppistandið í þjóðfélaginu af völdum þessarar hagsmunagæzlu fyrir hina fáu og ríku á kostnað hinna mörgu, var dæmið reiknað að nýju á vegum allsherjarnefndar Alþingis. Samt hafa hvorki nefndin né ráðherrann tekið mark á hinum nýju og réttu útreikningum.

Upplýst er, að starfsmaður tryggingafélaganna, sem samdi frumvarpið á sínum tíma, gaf Alþingi rangar upplýsingar um innihald þess. Þetta hefur rækilega verið staðfest, en samt þarf undirskriftir mikils meirihluta lögmanna landsins til að vekja málið á nýjan leik.

Tryggingafélögin mynda fáokunarhring, sem lætur sníða lög og reglur að þörfum sínum, og raka saman fé í skjóli pólitískrar aðstöðu. Þau halda uppi hærra verði á bifreiðatryggingum en þekkist á Vesturlöndum. Og þau neita að greiða fólki réttmætar skaðabætur.

Með aðstoð dómstóla og Hæstaréttar hefur tryggingafélagi til dæmis tekizt í átta ár að fresta því að greiða skaðabætur til konu, sem missti handlegg, þegar hún var þrettán ára. Með því að halda fénu fyrir konunni hefur tryggingafélagið stórskert tækifæri hennar í lífinu.

Síðan tapar tryggingafélagið þessu máli eins og félögin hafa verið að tapa slíkum málum á síðustu árum. Dómskerfið er meira eða minna stíflað af málum, þar sem tryggingafélögin reyna að draga greiðslur sem lengst til að knýja fórnardýr sín til ótímabærra samninga.

Fólk, sem hlýtur örorku í slysum, er illa í stakk búið til að halda uppi málarekstri gegn tryggingafélagi í mörg ár. Það freistast til að semja um smánarbætur til að fá eitthvað af peningum fljótt. Tryggingafélögin eru hins vegar rík og geta látið tímann vinna fyrir sig.

Ef allt væri með felldu í valdakerfi landsins, mundu dómstólar landsins afgreiða gerviáfrýjanir og frestunarkröfur tryggingafélaganna á einni viku og hreinsa málastífluna. Ef allt væri með felldu, mundi Alþingi setja strax ný skaðabótalög í stað hinna illræmdu.

En tryggingafélögin ráða ferðinni í krafti peningaveldis síns og rótgróinnar aðstöðu sinnar hjá stærstu stjórnmálaflokkunum. Þau eru skólabókardæmi um, að íslenzka þjóðfélagið er ekki sniðið að þörfum borgaranna, heldur að þörfum helztu valdastofnana þjóðfélagsins.

Framtak lögmannastéttarinnar er stórmerkileg tilraun til að vekja athygli Alþingis á, að þetta óeðlilega ástand í þjóðfélaginu fær ekki staðizt til lengdar.

Jónas Kristjánsson

DV