Atvinnusaga í hnotskurn

Greinar

Einstaka sinnum telja pólitísk stjórnvöld henta sér að líta út fyrir hefðbundinn ramma atvinnulífsins, sjávarútveg og landbúnað. Þá er annað hvort reynt að fá hingað eins konar happdrættisvinning í mynd stóriðju eða fleygt hundruðum milljóna í fjárfestingarsjóði nýrra greina.

Dauf reynsla er af stóriðju. Álverið er eiginlega eina niðurstaðan, því að járnblendiverksmiðjan var byggð með aðild ríkisins, sem síðan hljóp aftur undir bagga, þegar illa gekk. Um nokkurra ára skeið hefur nýtt orkuver við Blöndu beðið eftir stóriðju, sem ekki kom.

Reynslan er slæm af opinberum sjóðum til nýrra tækifæra. Loðdýraævintýrið kom og fór og sama er að segja um laxeldisævintýrið. Ríkið kaffærði þessar greinar í auðsóttum lánum, sem urðu eins og myllusteinn um háls nýrra fyrirtækja, þegar markaðurinn þrengdist.

Ríkið á ekki að freista manna með þessum hætti. Auðfengin lán eru efnahagsleg deyfilyf, sem gera fyrirtæki að lánafíklum, er geta ekki staðið undir rekstri og endurgreiðslum lánanna. Þannig urðu laxinn og loðdýrin að kennslubókardæmi um óhóflega velvild ríkisins.

Að fenginni þessari reynslu er freistandi fyrir stjórnvöld að gefast upp og halla sér að því, sem þau þekkja bezt. Það eru sjávarútvegur og landbúnaður, atvinnugreinar, sem einkenna fátæku löndin í heiminum. Ríkið þrautskipuleggur þær með sjóðum og kvótakerfum.

Kvótakerfið í sjávarútvegi felur í sér viðurkenningu á, að lengra verður ekki gengið í sjávarútvegi. Og kvótakerfið í landbúnaði felur beinlínis í sér viðurkenningu á, að greinin sé fremur atvinnubótavinna en raunverulegur atvinnuvegur. Hvert á þá unga fólkið að leita?

Reynsla Bandaríkjamanna og fleiri vestrænna þjóða á að segja okkur, að ný atvinnutækifæri myndast nærri öll í nokkurra manna smáfyrirtækjum. Þau myndast ekki í stórfyrirtækjum, þar sem stjórnendur eru önnum kafnir við að hagræða í rekstri og fækka starfsfólki.

Stjórnvöld geta stuðlað að vexti smáfyrirtækja með almennum, en ekki sértækum aðgerðum, sem auðvelda stofnun og rekstur, meðal annars með aðgerðum í samgöngumálum á borð við vegi, hafnir, flugvelli og síma. Ennfremur með nýrri samgöngutækni á borð við netið.

Hlutverk ríkisvaldsins á sviði atvinnulífsins á fyrst og fremst að felast í að byggja upp innri þjóðfélagsgerð, sem stuðlar að framtaki á nýjum sviðum. Samgöngurnar eru eitt atriðið. Annað er menntun fólks. Og hið þriðja er jafnræði milli nýs og gamals í atvinnulífinu.

Netið eða internetið er gott dæmi um, að stjórnvöld átta sig ekki á öllum hliðum þessa samhengis. Menntunin er eini þátturinn, sem er sómasamlegur. Menntunarleysi kemur að minnsta kosti ekki í veg fyrir, að Íslendingar geti haft miklar tekjur af nýju samgönguæðinni.

Til skamms tíma voru miklir möguleikar fyrir Íslendinga að hazla sér hátekjuvöll í atvinnu- og rekstrartækifærum netsins. Með lagi hefði meira að segja verið hægt að búa hér til litla paradís fyrir erlent hugvit á þessu sviði og flytja þannig inn atgervi á hátekjusviði.

Ríkið hefur hins vegar ekki skapað netinu hin ytri skilyrði. Svo lítil og léleg er nettengingin við útlönd, að engum útlendingi dettur í hug að taka þátt í rekstri hér á landi. Miklu líklegra er, að atgervisfólk á þessu sviði flýi úr landi til að tryggja hugmyndir sínar.

Nýja íhaldsstjórnin er þessum vanda ekki vaxin. Hún er upptekin af hefðbundnum greinum og leggur einkum áherzlu á að varðveita hagsmuni gróinna stórfyrirtækja.

Jónas Kristjánsson

DV