Auðlind á móti auðlind

Greinar

Þegar viðræður hefjast um aðild Íslands að Evrópusambandinu, verða talsmenn okkar að gera nógu miklar kröfur til ítaka í auðlindum Evrópu. Við eigum að gera kröfu til rekstraraðildar að koparnámum á Spáni, marmaranámum í Grikklandi og olíulindum í Frakklandi.

Þetta verður svar okkar við kröfum frá löndum Evrópusambandsins um aðild að auðlindum 200 mílna efnahagslögsögunnar og kröfum frá Evrópusambandinu um að fá að stjórna þessum auðlindum. Það hlýtur að verða gagnkvæmni í kröfum um aðgang að auðlindum annarra.

Krafa okkar um aðgang að evrópskum auðlindum er eina leiðin til að mæta þeirri frekju, sem einkennir kröfur Evrópusambandsins og aðildarríkja þess í viðræðum um aðild nýrra ríkja. Þær eru eina leiðin til að sýna fram á fáránleikann í frekjunni, sem þessir aðilar sýna.

Norðmenn höfðu ekki vit á að láta kröfu mæta kröfu. Þeir gerðu óhagstæðan samning við Evrópusambandið. Samningurinn felur í sér, að Evrópusambandið stjórni nýtingu norskra fiskimiða og að frekustu Evrópuríkin fái lítils háttar aðgang að veiðum á norskum fiskimiðum.

Ríkisstjórn Noregs hefur ekki tekizt að telja norskum kjósendum trú um, að þessu sé í rauninni varið á annan hátt, að Norðmenn muni stjórna veiðunum á óbeinan hátt í gegnum skriffinna í Brussel og að norsk fiskveiðistjórnarstefna verði óbeint tekin upp í Evrópu.

Þess vegna munu norskir kjósendur fella samninginn um aðild Noregs að Evrópusambandinu, jafnvel þótt meirihluti næðist í Svíþjóð með aðild. Samningur Noregs er einfaldlega svo óhagstæður, að norsk stjórnvöld geta ekki selt hann þjóðinni. Það sýna skoðanakannanir.

Þetta er hagstætt fyrir Ísland, af því að útreið Evrópusamningsins í Noregi dregur úr líkum á, að hann hafi fordæmisgildi, þegar enn einu sinni verður reynt að semja um aðild Noregs og þegar Ísland verður loksins tilbúið til að sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Aðild að Evrópusambandinu getur orðið okkur mjög hagkvæm. Hún ver okkur til dæmis töluvert vel fyrir efnahagslegri og viðskiptalegri ofbeldishneigð sambandsins út á við. Við þurfum sem smáríki að vera inni í hlýjunni, svo að tekið sé tillit til hagsmuna okkar.

Hins vegar er ástæðulaust að kaupa aðganginn að Evrópu of dýru verði að hætti norsku ríkisstjórnarinnar. Við eigum ekki að fallast á að veita Evrópusambandinu yfirstjórn efnahagsmála í 200 mílna lögsögunni og ekki fallast á veiðikvóta til ágengra Evrópuríkja.

Með þetta í huga getum við sótt í alvöru um aðild að Evrópusambandinu, ekki til að kanna málin, heldur með því markmiði, að Ísland verði aðili. Það kemur ekki í veg fyrir, að slitnað geti upp úr viðræðum, ef kemur í ljós, að Evrópa fellur ekki frá fiskimiðafrekju sinni.

Það er ekki fáránlegra, að við krefjumst koparnáma á Spáni, marmaranáma í Grikklandi og olíulinda í Frakklandi, en að ríkisstjórnir þessara landa geri kröfur til að fá aðgang að íslenzkum auðlindum og að Evrópusambandið sjálft fái að skipuleggja þær og stjórna þeim.

Með því að setja ásóknina í íslenzk fiskimið í rétt samhengi gagnkvæmniskröfunnar og fáránleikans á að vera unnt að verjast slíkri ásókn, einkum eftir að norskir kjósendur hafa fellt samning, sem felur í sér óviðurkvæmilegt afsal norskra landsréttinda á þessu sviði.

Ef við berum höfuðið hátt og gefum ekkert eftir af því, sem mestu máli skiptir, getum við náð góðum árangri í æskilegum viðræðum um Evrópuaðild okkar.

Jónas Kristjánsson

DV