Auðlindagjald er auðvelt

Greinar

Auðlindagjaldsnefnd Verzlunarráðsins gat ekki reiknað skynsamlega, hvert ætti að vera auðlindagjald í sjávarútvegi, af því að hún sá ekki mikilvægasta lið dæmisins. Hún áttaði sig ekki á, að frjálsi markaðurinn hefur þegar ákveðið helztu forsendur útreikningsins.

Þeir, sem kaupa og selja kvóta, leigja hann eða taka á leigu, ákveða á frjálsum markaði, hvað rekstur sjávarútvegsins ber. Þeir, sem taka kvóta á leigu, þurfa að greiða leiguna af tekjum á leigutíma. Þeir, sem kaupa, þurfa að fjármagna kaupverðið af tekjum á afskriftatíma.

Skattur þessi er til, þótt hann renni ekki til ríkisins, heldur til þeirra, sem selja eða leigja kvóta. Þeir eru að selja eða leigja verðmæti, sem ríkið hefur búið til með því að setja á fót skömmtun á aðgangi að kvóta. Með skömmtun hefur ríkið gert fiskveiðar arðbærar.

Ef ríkið skammtaði ekki aðgang að auðlindinni, væru fiskistofnar meira eða minna úr sögunni. Sjávarútvegur væri fyrir löngu orðinn gjaldþrota. Það er eingöngu fyrir tilstilli skömmtunar ríkisins, að svo er ekki. Þannig hefur ríkið framleitt skattleggjanleg verðmæti.

Skatturinn er þegar greiddur, en rennur til rangra aðila. Hann rennur fyrst milli aðila í sjávarútvegi, síðan út úr sjávarútveginum og loks til útlanda. Hann verður skilnaðargóss og erfðagóss og endar síðan ævina í lystihúsum, sem menn kaupa sér við Karíbahaf.

Leiguverð kvóta sýnir í stórum dráttum, hvert er verðgildi skömmtunarkerfis ríkisins. Stundum getur það að vísu verið hærra en eðlilegt markaðsverð, af því að við vissar aðstæður getur það verið jaðarverð, það er að segja aukið arðsemi rekstrar, sem fyrir er.

Með því að taka söluverð kvóta inn í myndina og afskrifa það á hefðbundinn hátt, fæst annað mat á verðgildi skömmtunarkerfis ríkisins, sem getur í ýmsum tilvikum verið lægra en það, sem leiguverðið sýnir. Auðlindagjald ætti að taka tillit til þessa.

Með einföldum og auðreiknanlegum fyrirvörum af þessu tagi við einföld og auðreiknanleg reikningsdæmi er hægt að sjá, hvernig frjálsi markaðurinn verðleggur skömmtunarkerfi ríkisins. Þannig kemur verðgildi auðlindarinnar í ljós á náttúrulegan markaðshátt.

Með þessu er sagt, að stór hluti sjávarútvegsins greiðir nú þegar auðlindagjald, en að það renni bara í rangan vasa. Gjaldið hefur þegar verið ákveðið á frjálsum markaði, en rennur ekki í vasa þess, sem kom með skömmtun fiskveiða í veg fyrir hrun sjávarútvegs.

Það er því markleysa, þegar nefnd á vegum Verzlunarráðs er að reyna að meta, hvað sjávarútvegurinn beri hátt auðlindagjald ofan á það auðlindagjald, sem hann ber nú þegar. Málið felst ekki í meiri skattlagningu, heldur í að finna réttan viðtakanda auðlindagjalds.

Núverandi auðlindagjald er ávísun á misrétti og sporðaköst í þjóðfélaginu. Það leiðir til upplausnar í sjávarplássum, þegar kvótar eru seldir burt eða erfingjar ákveða að eyða ævinni við strendur Karíbahafs eða fela peningana í hendur mannvinarins Moons.

Ef auðlindagjaldið rennur til ríkisins, verður síður misrétti og upplausn. Peningarnir haldast líka miklu fremur inni í landinu og nýtast að nokkru til að halda uppi byggðastefnu. Þeir eiga einnig að geta dregið úr skattlagningarþörf ríkisins á öðrum sviðum.

Bezt er, að frjáls markaður ákveði auðlindagjald til ríkisins eins og hann ákveður nú kvótaverð. Rétt auðlindagjald finnst einfaldlega á opnum uppboðum.

Jónas Kristjánsson

DV