Auðlindagjaldi vex ásmegin

Greinar

Gróska styður auðlindagjald samkvæmt nýútkominni stefnuskrá. Orðalagið er almennt og nær yfir meira en fiskinn í sjónum. Hins vegar getur það varla talizt loðið. Ef samruni verður á vinstri væng stjórnmálanna, má ljóst vera, að auðlindagjald verði innan borðs.

Í stefnuskrám flokka er algengt að tala óljóst um viðkvæm ágreiningsefni, sem ganga þvert á hefðbundnar flokkslínur. Þannig segir Gróska pass í Evrópumálunum með því að hafa þá þægilegu skoðun eina á stefnuskrá, að þjóðaratkvæðagreiðsla verði um málið.

Það skýrir línur, þegar viðkvæm deilumál verða að flokksmálum. Auðlindagjald í sjávarútvegi hefur meira eða minna klofið alla flokka nema Alþýðuflokkinn og Bandalag jafnaðarmanna. Telja má þó líklegt, að allur þorri kjósenda Kvennalistans sé sama sinnis.

Framsóknarflokkurinn er kjarnaflokkur afsals auðlinda þjóðarinnar í hendur útgerðarfyrirtækjum. Með því að setja auðlindagjald á oddinn er Gróska að búa til áþreifanlegan mun á stefnu hins væntanlega vinstri flokks annars vegar og Framsóknar hins vegar.

Góð er þróun, sem skýrir línur. Hún auðveldar jaðarfólki flokka að flytjast milli þeirra. Steingrímur Sigfússon og aðrir stuðningsmenn núverandi kerfis geta farið yfir í Framsóknarflokkinn, þar sem þeir eiga heima, og aðrir komið í staðinn til baka úr Framsókn.

Sjálfstæðisflokkurinn er ekki í þessari mynd, þar sem stefnuskrár eru lítill þáttur í tilveru hans. Hann hefur þá skoðun á auðlindagjaldi eins og Evrópu, að Davíð eigi að sjá um það. Flokkurinn er eins og íþróttafélag, sem ræður þjálfara og liðsstjóra til að hugsa og stjórna.

Meðan Davíð er framsóknarmegin á götunni verður flokkur hans það líka. Þess vegna mun Sjálfstæðisflokkurinn í orði hafa loðið orðalag um skipan sjávarútvegs, en á borði styðja þá stefnu formanns Framsóknarflokksins, að útgerðarfyrirtæki skuli eiga auðlindina.

Þetta gefur Grósku tækifæri til að veiða í stuðningsmannaliði Sjálfstæðisflokksins. Þar eru margir sárlega ónægðir með núverandi kerfi og eiga þar á ofan erfitt með að sætta sig við, að einn hugsi fyrir alla. Alþýðuflokkurinn hefur stundum hrært í þessu liði.

Stefnuskrá Grósku bendir til, að hún vilji, að nýr flokkur taki við því hlutverki Alþýðuflokksins að vera skjól óánægðra sjálfstæðismanna. Skráin er margorð um einstaklingsfrelsi og aðra fagra hnappa, sem valda sjálfvirkum viðbrögðum meðal framtakssinna.

Auðlindagjald nýtur vaxandi stuðnings með þjóðinni. Velgengni Grósku í sameiningarmálum og veiðiskapur nýs flokks á miðum Sjálfstæðisflokksins getur markað þau þáttaskil, að þjálfarinn og liðsstjórinn vilji skipta um skoðun og mynda stjórn án Framsóknar.

Þessar hugleiðingar eru þeim annmarka háðar, að þær gera ráð fyrir, að Alþýðubandalagið snúist á sveif með sjónarmiðum Grósku í sjávarútvegsmálum. Slíkt er engan veginn öruggt, þótt þróunin hafi verið ör í þá áttina, meðal annars í landsbyggðarkjördæmum.

Línur Alþýðubandalagsins skýrast á landsfundinum, sem hefst í dag og stendur næstu daga. Þar verður tekizt á um stefnu Margrétar flokksformanns, sem styður málstað Grósku, og stefnu nokkurra þingmanna, sem vilja í stórum dráttum óbreytta stefnu.

Útspil Grósku þrýstir á Alþýðubandalagið og er mikilvægur áfangi í endurheimt auðlindar, sem stjórnmálamenn voru búnir að afsala í hendur útvalinna.

Jónas Kristjánsson

DV