Auðlindamáli drepið á dreif

Greinar

Hugmynd forsætisráðherra í eignarhaldsmálum auðlinda hafsins er, að vel stæðir borgarar, sem flestir eru kjósendur Sjálfstæðisflokksins, geti keypt sig inn í hluta auðlindarinnar og að þessi kaup verði niðurgreidd, annaðhvort af ríkinu eða af fyrirtækjum sægreifa.

Þetta er uppvakning gamallar umræðu um almenningshlutafélög, sem Eyjólfur Konráð Jónsson alþingismaður hóf endur fyrir löngu, en náði þá ekki eyrum margra. Forsenda hugmyndarinnar var, að æskilegt væri, að sem flestir væru óbeinir aðilar að rekstri.

Almenningshlutafélög Eykons eru hið bezta mál og eiga framtíðina fyrir sér, þótt varlega beri að fara í niðurgreiðslur á hlutafé. Þetta framfaramál er samt óviðkomandi núverandi umræðu um, hvernig þjóðin geti endurheimt auðlindirnar úr höndum sægreifa.

Sú hugmyndfræði er á allt öðru sviði en hugmyndafræði almenningshlutafélaga, þótt þær stangist alls ekki á og geti að sumu leyti skarast. Krafan um endurheimt auðlindanna er krafa um réttlæti og krafa um eðlilegt markaðsgengi á aðgangi að auðlindum hafsins.

Með því að skammta aðgang að auðlindunum hefur ríkið skapað sumum forgang fram yfir aðra. Með þessari takmörkun á aðgangi hefur tekizt að lífga fiskistofna við, svo að til verða gífurleg aflaverðmæti, sem ekki fengjust, ef aðgangur hefði ekki verið skammtaður.

Eðlilegt er, að ríkið fái fyrir hönd þjóðarinnar eitthvað í sinn hlut fyrir að hafa endurreist fiskistofna og gert útgerð hagkvæma á nýjan leik. Einnig er eðlilegt, að sægreifar hafi engan forgang umfram aðra að því að hagnast á aðgangs-skömmtun almannavaldsins.

Einfaldasta lausnin er, að ríkið staðfesti þjóðareign á auðlindunum og bjóði upp þann aðgang, sem skömmtunarkerfið leyfir. Þar með finnst markaðsgengi á þessum aðgangi, alveg eins og að um þessar mundir er að finnast markaðsgengi á Landsbankanum.

Áður en ákveðið var að finna markaðsgengi Landsbankans á frjálsum markaði voru kallaðir færustu sérfræðingar til að meta verðgildi bankans. Þeir mátu auðvitað verðgildið vitlaust, eins og menn gera alltaf, þegar þeir neita að láta markaðinn um hituna.

Auðvitað væri samt framkvæmanlegt að reikna verðgildi aðgangsins að auðlindunum. Munurinn á útreiknuðu verði og uppboðsverði er markaðsfræðilegur munur, rétt eins og munurinn á fámennum hlutafélögum og almenningshlutafélögum er hagfræðilegur munur.

Útboð og almenningshlutafélög eru gagnleg hagstjórnartæki, sem varða sjávarútveg ekki sérstaklega, þótt þau nýtist honum eins og öðrum þáttum þjóðfélagsins. Fólk hefur hins vegar ekki verið að tala um hagstjórnartæki í umræðunni um eignarhald auðlinda.

Annaðhvort misskilur forsætisráðherra þessa umræðu eða þá, sem líklegra er, að hann vilji misskilja hana. Tilgangur hans er þá væntanlega að drepa málinu á dreif með því að beina áhuga kjósenda Sjálfstæðisflokksins með sjónhverfingu inn á aðrar brautir.

Þar sem kjósendur Sjálfstæðisflokksins eru margir hverjir meðteknir af því, sem formaður þeirra segir þeim að trúa hverju sinni, má búast við, að forsætisráðherra takist að snúa umræðunni um eignarhald auðlinda að nokkru leyti yfir í umræðu um hlutafélagaform.

Þess vegna verða aðrir aðilar umræðunnar að muna, að hún snýst um, að þjóðin endurheimti eign, sem stjórnmálamenn stálu og afhentu sægreifum.

Jónas Kristjánsson

DV