Auðlindar-martröð.

Greinar

Sagan segir, að einu sinni hafi Grímsá á Héraði þrotið, þegar nota átti vatn úr henni í steypu við smíði orkuversins við ána. Flytja varð vatn langar leiðir til að reisa orkuver, sem hin þurra Grímsá skyldi knýja.

Þetta er dæmi um, að stjórnmálamenn hafa ekki eingöngu látið virkja ár til að búa til rafmagn, heldur einnig til að búa til atvinnu. Þeir vissu vel, að Grímsá yrði afar óáreiðanlegur orkugjafi, en lokuðu augunum fyrir því.

Nú hyggjast margir komast í feitt, þegar byrjað er að virkja Blöndu. Menn hafa keypt sér flutningabíla og sett upp bílaleigur til að ná í flís af væntanlegu gullflóði framkvæmdanna. Þetta er gamalkunn saga frá fyrri orkuverum.

Virkjun Blöndu hefur tafizt, meðal annars vegna deilna um forgang heimamanna að vinnu við framkvæmdirnar. Verkalýðsfélög svæðisins vilja, að verkreyndir virkjanamenn víki fyrir óreyndum heimamönnum.

Atvinnubótastefnan er aðeins einn af nokkrum þáttum, sem hafa spillt draumi Einars Benediktssonar og allrar þjóðarinnar um gullkistu fossanna, um hina ódýru orku, sem átti að verða hornsteinn framtíðar Íslendinga.

Annar þáttur er, að stóriðjan, sem átti að taka á sig kostnaðinn við að beizla kraftinn, hefur orðið mun lakara búsílag en reiknað hafði verið með. Því valda einkum endurtekin mistök í samningum við stóriðjumenn.

Svo er nú komið, að álverið í Straumsvík er orðið baggi á Landsvirkjun og veldur því, að orkuverð til almennra neytenda er hærra en ella hefði verið. Þessu hefðu fáir trúað fyrr á árum, þegar skáldin ortu.

Þriðji þátturinn er, að náttúrlegar aðstæður hafa reynzt lakari en reiknað var með. Jökulárnar haga sér eins og ótemjur og spilla auk þess hverflum með aurburði. Einnig hverfur vatnsforði gegnum lek jarðlög.

Orkuver Landsvirkjunar á Þjórsársvæðinu eru skýrasta dæmið um þessi vandræði. Búrfellsvirkjun varð hálfu dýrari en áætlað hafði verið. Og enn er varið stórfé á sumri hverju til að reyna að þétta lónið við Sigöldu.

Fjórði þátturinn er hinn mikli kostnaður við flutning raforkunnar um dreifbýlið. Hann kemur fram í svo háu verðjöfnunargjaldi, að rafmagn hjá veitendum er sums staðar orðið dýrara en hjá sumum hinna, sem þiggja.

Fimmti þátturinn og ekki hinn sízti er skortur á pólitísku hugrekki til að láta núverandi kynslóð borga orkuver sín. Erlendar lántökur hafa verið notaðar í óhófi til að draga úr þörfinni á eigin fjármögnun orkuveranna.

Hjá Landsvirkjun er hin uppsafnaða afleiðing sú, að 80% rekstrarkostnaðarins er hreinn fjármagnskostnaður, – afborganir og vextir af lánum. Pólitískt hugleysi fyrri ára er byrjað að hefna sín í háu orkuverði.

Afleiðingin af öllu þessu er, að íslenzkir notendur orkunnar þurfa að greiða hana hærra verði en nágrannarnir á Norðurlöndum. Rafmagnið í Reykjavík er þrefalt dýrara en rafmagnið í Osló, hvort tveggja frá vatnsaflsstöðvum.

Draumurinn um auðlind fosskraftsins er orðinn að martröð, þegar rafmagn í Reykjavík er orðið mun dýrara en frá kolakyntum orkuverum Kaupmannahafnar. Við verðum þó að vona, að framvegis skorti ekki vatn í steypuna, þegar orkuver eru reist.

Jónas Kristjánsson

DV