Auðlindir og óskabörn

Greinar

Þótt auðlindir og óskabörn geti verið afar notaleg, geta þau leitt til vandamála við aðrar aðstæður. Stundum er hætta á, að þau verði að dekurbörnum og myllusteinum. Við skulum fyrst skoða dæmi frá útlöndum, því að auðveldara er að sjá arfa í annars garði.

Danir hafa spjarað sig vel í lífinu, þótt þeir eigi ekki auðlindir. Þeir flytja inn mestan hluta af orkunni, sem þeir nota, þar á meðal 90% af kolaþörfinni. Samt hafa þeir eitt allra lægsta orkuverð í Evrópu, mun lægra orkuverð en Íslendingar, sem hafa yfirfljótandi orku.

Norðmenn hafa prísað sig sæla af að hafa fengið happdrættisvinning í olíu- og gaslindum á sjávarbotni. En þeir hafa stillt fjármál sín svo hastarlega á olíuna, að sveiflur í olíuverði hafa valdið umtalsverðum vandræðum og skuldabyrði í Noregi. Olían er eins og ópíum.

Við eru heppin að hafa ekki eigin framleiðslu á bílum og flugvélum. Í stað þess að þurfa að gæla við innlend óskabörn getum við leyft okkur að kaupa bíla og flugvélar frá hverjum þeim löndum, þar sem bezt er boðið hverju sinni. Eins og Danir í kolakaupum.

Íslenzka ríkið er hins vegar í senn eigandi að tveimur óskabörnum, annars vegar Landsvirkjun og hins vegar Járnblendiverksmiðjunni. Þetta leiðir til innherjaviðskipta, sem felast í, að Landsvirkjun var látið blæða, þegar Járnblendiverksmiðjunni var komið á fót.

Með nokkurri einföldun má segja, að markaðslögmálin ráði mestu um, hver gæfa eða ógæfa er af auðlindum og óskabörnum. Við getum talað um seljendamarkað, þegar eftirspurn er meiri en framboð, og um kaupendamarkað, þegar framboð er meira en eftirspurn.

Þar sem við erum svo heppin að hafa ekki eigin ávaxtarækt á Íslandi, getum við leyft okkur að flytja hvers konar ávexti frá hvers kyns hnattstöðu eftir verði og gæðum hverju sinni. Eigin garðyrkja takmarkar hins vegar möguleika okkar á að fá gott og ódýrt grænmeti.

Af því að við höfum eigin landbúnað á nokkrum afmörkuðum sviðum, sem skrimta við jaðar freðmýrabeltisins, getum við ekki fengið ódýra og góða osta af ótal gerðum og ekki fengið hræódýrt smjör, sem kostar aðeins tíunda hluta af því, sem íslenzkt smjör kostar.

Þegar seljendamarkaður var á siglingum til Íslands, var forfeðrum okkar mikill léttir í að eignast óskabarn í íslenzku eimskipafélagi með eigin skipum og hafnaraðstöðu. Nú getur óskabarnið breytzt í dekurbarn samkvæmt alþekktum markaðslögmálum utan úr heimi.

Dekurbarnatíminn er runninn upp, þegar þau og stuðningsráðuneyti þeirra eru farin að gefa út línurit og töflur til að sýna fram á, hvað sé “sanngjarnt” verð á ýmissi þjónustu þeirra í samanburði við hliðstæða þjónustu fyrr á tímum eða á öðrum stöðum í heiminum.

Helzta einkenni dekurhyggju er, að útreikningar og útskýringar koma í stað raunveruleikans, sem felst í frjálsri samkeppni. Og úrslitaröksemdin er jafnan sú, að dekurbarnið megi ekki við verri afkomu en það hefur nú. Alveg eins og kostnaður sé föst stærð í dæminu.

Samkeppni á hörðum kaupendamarkaði veldur því, að fyrirtækin bæta sig, mæta verðlækkunum með útsjónarsemi, sparnaði og hagræðingu. Í gæludýraheimi vantar þetta aðhald, svo sem sést af því, að Íslendingar borga hærra raforkuverð en þjóð, sem ekki á orku.

Þjóðum vegnar því betur sem þær eru fljótari að átta sig á, hvenær óskabörn breytast í dekurbörn og hvenær verðmætar auðlindir breytast í myllusteina um háls.

Jónas Kristjánsson

DV