Auðmýking á skjánum

Punktar

Gamaldags er orðið að sýna auðmýkingu ófróðra í spurningaþáttum sjónvarps. Í Bandaríkjunum og víðar keppast sjónvarpsstöðvar við að ganga sem lengst í að smána fólk, sem þráir að öðlast kortérs frægð á því að láta lítillækka sig. Enginn skortur er á þessum ódýra vinnukrafti. Alessandra Stanley skrifar ágæta grein um þetta í New York Times í dag. Þátttakendur eru látnir þjást á ýmsan hátt. Í “Örmagna” er þeim haldið vakandi dægrum saman. Í “Erfðaskránni” berjast þeir um arf látins ættingja. Í “Cathouse” eru þeir látnir fara á hóruhús í Nevada. Því lengra, sem gengið er í að niðurlægja fólk á skjánum, þeim mun meira eykst áhorfið. Það er að verða sameiningartákn sjónvarpsstöðva, að áhorfendur þrá að sjá auðmýkingu í skjánum.