Feita söngkonan hefur sungið síðasta versið í óperu forkosninganna vestan hafs. Mitt Romney verður forsetaefni repúblikana í Bandaríkjunum. Enn einu sinni hafnar flokkurinn öfgaarminum, sem fylkti sér að baki Rick Santorum og Newt Gingrich. Í stað öfganna mun fjármagnið áfram stjórna repúblikönum. Kosningabarátta Romney er sú langdýrasta frá ómunatíð. Og flest bendir til, að framhald hennar verði enn dýrara. Fjármagnið hefur endanlega tekið völdin í Bandaríkjunum. Auðræði hefur leyst leifar lýðræðis af hólmi. Lýðurinn er kominn í hlutverk atkvæðavéla, sem hegða sér að stjórn almannatenglanna.