Auður og völd

Greinar

Alþýðusambandsþing minna mjög á landsþing bandarísku stjórnmálaflokkanna, áður en prófkjör og forkosningar einstakra ríkja urðu meginaðferðin við að safna liði um forsetaframbjóðendur. Þá var forsetaframboðum vestra ráðið í vindlareykmettuðum bakherbergjum.

Á Íslandi árið 1996 er forsetamálum Alþýðusambandsins ráðið á heimili eins hliðarkóngsins. Þar sömdu nokkrir menn um niðurstöðu þingsins og stilltu öðrum upp við vegg, svo að þeir sáu sitt óvænna og létu hlut sinn fyrir þeim, sem greinilega tefldu skákina bezt.

Ekki voru allir þingfulltrúar sáttir við þessa niðurstöðu. Þeir mótmæltu bakherbergisvinnubrögðunum með því að bjóða fram nýtt og óþekkt forsetaefni, sem fékk 25% atkvæða. Sigurvegararnir fóru þannig nokkuð sárir út úr þinginu, en munu fljótlega jafna sig.

Margir fletir eru á valdabraskinu í Alþýðusambandinu. Einn er hinn flokkspólitíski, þar sem þrír stjórnmálaflokkar hafa með sér eins konar ekki-árásarbandalag um, að hver þeirra eigi einn af þremur forsetum og varaforsetum sambandsins. Þetta kerfi stóðst í sviptingunum.

Annar flötur er baráttan milli svonefnds uppmælingaraðals, það er að segja mannanna með sveinsprófin, og almenns verkafólks. Eins og venjulega urðu hinir fyrrnefndu sigurvegarar. Einn af þessum aðalsmönnum fetaði í fótspor forverans eins og hann hefur áður gert.

Þetta þýðir í raun, að framvegis verða kjarasamningar eins og þeir hafa lengi verið. Í samningaharki verða láglaunamenn dráttarklárar. Mikið verður talað um, að nauðsynlegt sé að jafna laun, en þegar upp verður staðið, hafa þeir fengið meira, sem betur mega sín.

Alþýðusambandið og helztu undirsambönd þess snúast ekki og hafa lengi ekki snúizt um kjör fólks. Þetta eru fyrst og fremst fyrirtæki eins og önnur fyrirtæki í landinu og stjórnendurnir eru verkalýðsrekendur á svipaðan hátt og aðrir atvinnurekendur í landinu.

Forsetar og formenn þessara sambanda eru hluti yfirstéttarinnar í landinu og hafa tekjur í samræmi við það. Þetta er talið nauðsynlegt, því að annars væru stéttarfélögin ekki samkeppnishæf um hæfileika á vinnumarkaði. En þetta skilur á milli þeirra og félagsmanna.

Forsetar og formenn þessara sambanda sitja í stjórnum ýmissa sjóða, þar sem lífeyrissjóðir landsmanna skipa fremsta sess. Mikið af fjárfestingarfé landsins fer um þessa sjóði, sem eru smám saman að verða að öflugustu hluthöfum ýmissa helztu stórfyrirtækja landsins.

Lífeyrissjóðir tengja saman hagsmuni stórfyrirtækjanna og hagsmuni yfirstéttar samtaka launafólks. Þess vegna snýst hugsun aðalsins í samböndum stéttarfélaganna einkum um svipuð mál og í öðrum stórfyrirtækjum. Hún snýst fyrst og fremst um auð og völd.

Þetta veldur því, að mikilvægt er fyrir aðalinn að gera út um sín mál í vindlareykmettuðum bakherbergjum eða á heimilum hver annars, en láta þau ekki rekast í óvissu almennrar atkvæðagreiðslu á gólfi Alþýðusambandsþinga. Þannig gekk forsetaembættið í arf í fyrri viku.

Þetta þýðir líka, að sambönd stéttarfélaganna eru meira eða minna óhæf til að gæta hagsmuna félagsmanna sinna í kjarasamningum, svo sem dæmin sanna endalaust. Þetta þýðir líka, að fulltrúar þeirra standa oftast með einokun landbúnaðarins gegn neytendum.

Verkalýðsrekendur er orðið, sem lýsir bezt yfirstétt sambanda stéttarfélaga. Það lýsir stétt, sem er hluti yfirstéttarinnar og stundar rekstur, með launþega að vöru.

Jónas Kristjánsson

DV