Auður sjór á norðurpól

Greinar

Fjölþjóðlegur hópur vísindamanna, sem kom til norðurpólsins á rússneskum ísbrjóti fyrir helgina, komst að raun um, að þar var auður sjór. Slíkt hefur ekki gerzt í 50 milljón ár, svo vitað sé og er talið mikilvægt sönnunargagn í umræðunni um hækkun hitastigs jarðar.

Sigla varð ísbrjótnum Jamal níu kílómetra frá pólnum samkvæmt GPS-mælingu til þess að hægt væri að taka hina hefðbundnu pólarmynd af leiðangursmönnum. Þegar ísbrjótnum var siglt til pólsins fyrir sex árum, var ísþykktin tveir til þrír metrar á sjálfum pólnum.

Þetta er í samræmi við mælingar á meðalþykkt ísþekjunnar í norðurhöfum. Hún hefur á skömmum tíma minnkað úr þremur metrum í tæpa tvo metra og heildarrúmmál hennar minnkað um helming. Fræðimenn eru nú farnir að tala í alvöru um, að ísþekjan sé að hverfa.

Á sama tíma hafa rannsóknir í Bandaríkjunum leitt til þeirrar niðurstöðu, að fjórðungur af losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið stafi af náttúrulegum ástæðum á borð við eldgos og skógarelda og þrír fjórðu hlutar vegna afskipta mannkynsins af umhverfi sínu.

Til skamms tíma hafa stórfyrirtæki í mengunargreinum borgað stórfé til rannsókna, sem eiga að draga í efa, að samhengi sé milli losunar gróðurhúsalofttegunda og hækkunar hitastigs í heiminum og eiga að draga í efa, að hiti sé að hækka í heiminum og að það sé hættulegt.

Nú hafa ráðamenn margra þessara fyrirtækja snúið við blaðinu og tekið upp stuðning við samtök gegn losun gróðurhúsalofttegunda. Að eigin frumkvæði hafa þeir sett fyrirtækjunum markmið um minnkandi mengun og segja þau ekki kosta eins mikið og áður hafði verið talið.

Með nýjum rannsóknum og auknum flótta í liði fyrirtækja í orkugeiranum fækkar stuðningsmönnum sjónarmiða umhverfisfjandsamlegrar ríkisstjórnar Íslands og hagsmunaaðila í orkumálum og sjávarútvegi. Þá er nú helzt að finna í austri hjá ríkisstjórn Rússlands.

Þar er fólk ofsótt fyrir að fylgjast með mengun og kært fyrir iðnaðarnjósnir. Frægasta dæmið er Alexander Nikitin, sem hefur níu sinnum á fimm árum verið ákærður fyrir góða og fræðilega skýrslu á vegum Norðmanna um kjarnorkuúrgang rússneska norðurflotans.

Afleiðingar hækkunar hitastigs á hnettinum eru margvíslegar, sumpart góðar og sumpart vondar. Ef breytingin gerist hratt, verða vondu afleiðingarnar meiri, af því að umhverfið þarf langan aðlögunartíma. Sums staðar geta auknir þurrkar til dæmis leitt til eyðingar jarðvegs.

Fyrir Ísland verður flutningur fiskistofna eitt erfiðasta málið. Þeir hafa hingað til flutt sig til eftir hitastigi og kunna margir bezt við sig við mörk heitra og kaldra strauma. Ef sjávarhiti eykst og straumaskil færast norðar, kunna fiskistofnar að leita í átt til norðurpólsins.

Allt samhengið ætti að vera stórmál fyrir þjóð, sem er háðari frumvinnslugreinum en flestar auðþjóðir heimsins. Losun gróðurhúsalofttegunda og breytingar á hitastigi í lofti og í sjó ættu að vera ofarlega á gátlistum hagsmunaaðila í þessum greinum og ríkisstjórnarinnar.

Í staðinn leggur forsætisráðherra lykkju á leið sína í hátíðaræðum til að veitast að Kyoto-sáttmála ríkja heims um takmörkun losunar gróðurhúsalofttegunda. Og utanríkisráðherra flækist um heiminn til að reyna að hafa ráðamenn ofan af stuðningi við Kyoto-sáttmálann.

Róður þeirra þyngist, því að upp hlaðast gögn, sem benda til, að mannkynið í heild og Íslendingar sérstaklega muni lenda í erfiðleikum vegna þessarar mengunar.

Jónas Kristjánsson

DV