Auðurinn ferðast víða

Greinar

Hugvit og fjármagn, sem verða til á Íslandi, leita út í heim að tækifærum. Fjölþjóðlegt samkomulag Vesturlanda er um að leggja niður fyrri höft og hömlur, svo að mannauður og peningar geti flætt milli landa. Ísland er sem þjóðfélag þáttur í þessari deiglu markaðarins.

Öflugir háskólabæir á borð við Boston og San Francisco í Bandaríkjunum og Cambridge í Bretlandi soga til sín frumkvöðla í nýjustu tækni og vísindum, af því að þar er mannauðurinn, sem fyrirtæki frumkvöðlanna sækjast eftir. Á slíkum svæðum eru sílikon-dalir nútímans.

Frá sjónarhóli einstakra Íslendinga lítur þetta út sem tækifæri. Vegna samninga við Norðurlönd og Evrópusambandið geta menn leitað að spennandi atvinnu víða um Evrópu. Frá sjónarhóli þjóðfélagsins felst í þessu hætta á atgervisflótta og versnandi samkeppnisstöðu þess.

Á íslenzku fjárfestingarþingi í London kom í ljós, að erlendir ráðgjafar vilja, að enska verði höfuðtunga íslenzkra frumkvöðlafyrirtækja, þau stofni skrifstofu í útlöndum og flytji helzt höfuðstöðvar sínar til staða á borð við Cambridge, þar sem rétta andrúmsloftið sé.

Erlendir fjárfestar hika við lítt þekkt og lítil lönd og ekki síður við tungumál, sem þeir skilja ekki. Þeim finnst löng ferðalög til Íslands vera sóun á tíma sínum. Þeir telja sig ekki geta fylgzt nógu vel með gengi fyrirtækjanna, ef margar slíkar hindranir eru í vegi eftirlitsins.

Við sjáum í hagtölum, að fjármagn, sem myndast á Íslandi, hefur sumpart leitað burt. Fúlgur, sem mynduðust við gjafakvótann í sjávarútvegi, eru horfnar á braut og eigendurnir hafa sumpart fært sig í kjölfarið. Aðeins hluti fjárins nýtist í fjárfestingar innanlands.

Við sjáum líka, að fjármagn, sem myndast af völdum velgengni í rekstri hér á landi, er stundum notað til að nýta kunnáttuna og kaupa hliðstæð fyrirtæki í erlendum löndum. Ef vel gengur, verða fyrirtækin smám saman fjölþjóðleg og höfuðstöðvarnar eru fluttar úr landi.

Tækifæri einstaklinganna geta verið áhyggjuefni ríkisvaldsins, sem ekki getur flutt sig milli landa eins og hugvitið og fjármagnið. Þjóðfélagið leggur til innviði á borð við skóla og götur, en missir síðan af hluta sínum í hagnaðinum, af því að tækifærin eru betri úti í heimi.

Hvert er gagnið af góðum skólum, ef hugvitið fer úr landi? Hvert er gagnið af velgengni fyrirtækja, ef fjármagnið fer úr landi? Svör ríkisvaldsins við slíkum spurningum hljóta sumpart að vera önnur en svör einstaklinganna, sem taka þátt í ævintýrum umheimsins.

Opnun landamæranna er ögrun, sem þjóðfélagið þarf að bregðast við. Getur það fundið leiðir til að sameina tiltölulega lága skatta og tiltölulega góða þjónustu, svo að hugvit og fjármagn sogist frekar inn en út? Eru einhver eftirsóknarverð lífsgæði einkum í boði hér á landi?

Engin einföld svör eru við ögrun nútímans. Ljóst er þó, að ríkisvaldið hefur ekki ráð á að nota skattfé fólks og fyrirtækja til gæluverkefna á borð við varðveizlu byggðar á afskekktum stöðum, þegar hið raunverulega verkefni er að fá fólk til að búa á Íslandi, frekar en í útlöndum.

Ýmis sérstaða getur líklega falið í sér eftirsóknarverð lífsgæði, svo sem svigrúmið í mannfáum víðernum hálendisins, þar sem hvergi blettar háspennulína. Einnig þarf að afnema ýmsa forneskju, sem gerir það að tímafreku tollamáli að fá senda ársskýrslu frá útlöndum.

Mikilvægast er, að ríkisvaldið átti sig á, að opnun landamæranna hefur komið því í harða samkeppni við umheiminn um mannauð og peninga nútímans.

Jónas Kristjánsson

DV