“Aukafjárveitingar”

Greinar

Dæmigert fyrir valdaafsal Alþingis sem fjárveitingavalds er, að þingmenn tala almennt um útgjöld ráðherra umfram fjárlög sem “aukafjárveitingar”. Með þessu orðavali er verið að viðurkenna, að ráðherrar hafi fjárveitingavald, sem þeir hafa þó alls ekki.

Samkvæmt stjórnarskrá er Ísland þingræðisríki eins og flest ríki Vestur-Evrópu. Valdinu er skipt milli aðalstofnana ríkisins á þann hátt, að Alþingi er falið að setja lög. Langsamlega mikilvægustu lög, sem Alþingi setur, eru hin árlegu fjárlög og lánsfjárlög ríkisins.

Í þessu sem öðru hefur myndazt ólögleg hefð um, að Alþingi afsali sér valdi. Hinar svokölluðu “aukafjárveitingar” eru bara eitt dæmi um þetta. Þar á ofan eru lög, sem Alþingi setur, oftast sterklega pipruð með víð tækum ákvæðum um heimildir handa ráðherrum.

Alþingi hefur líka leyft ráðherrum að framleiða verðbólgu með því að þynna krónuna með prentun nýrra peningaseðla, sem ekki hafa nein ný verðmæti að baki sér. Þannig hefur krónuþynning í seðlaprentun numið meira en milljarði króna á mánuði frá áramótum.

Þynning krónunnar með seðlaprentun er uppspretta margra þungbærustu efnahagsvandræða þjóðarinnar, einkum verðbólgunnar og vaxtanna, sem henni fylgja. Helzti þáttur efnahagsaðgerða allra ríkisstjórna er glíma við verðbólgu, sem er afleiðing seðlaprentunar.

Þegar Alþingi ákveður að fara að taka starf sitt alvarlega að nýju, verður eitt fyrsta verkið að taka seðlaprentunarvaldið af ráðherrunum. Það gerir Alþingi með því að banna Seðlabankanum að veita ríkisstjórnum yfirdrátt á annan hátt en með ströngum skilyrðum Alþingis.

Þegar Alþingi vaknar þannig óvænt til lífsins, mun það einnig leggja niður ósið heimildarákvæða í nýjum lögum. Þar á ofan mun Alþingi láta tölvu finna alla staði í gömlum lögum, þar sem standa orðin: “…ráðherra er heimilt…” Slík orð verða svo strikuð út með lögum.

Svo virðist sem alþingismenn séu farnir að rumska. Tveir fjárveitinganefndarmenn, Pálmi Jónsson og Geir Haarde, hafa lagt fram frumvarp, sem setur strangar skorður við útgjöldum ráðherra umfram fjárlög. Þetta mikilvæga spor í rétta átt verður vonandi samþykkt.

Að vísu segir Ólafur Þ. Þórðarson fjárveitinganefndarmaður réttilega, að frumvarpið gangi ekki nógu langt. Hann vill, að Alþingi sjálft ákveði aukafjárveitingar, en framselji ekki valdið til fjárveitinganefndar. En þessir þrír nafngreindu þingmenn ættu að stilla saman strengi.

Svo langt gengur valdhroki ráðherra, að þeir láta borga atriði, sem Alþingi var áður búið að hafna. Talið hefur verið saman, að í fyrra vörðu ráðherrar 625 milljónum króna til ýmissa verkefna, sem Alþingi hafði áður fjallað um, en ekki treyst sér til að fjármagna.

Slíkt athæfi er ekki bara ósiðlegt og ólöglegt, heldur er það hreint og tært stjórnarskrárbrot. Furðulegt er, að Alþingi skuli láta slíkt viðgangast ár eftir ár og þurfa þar á ofan að þola, að það færist í vöxt með nýjum og ósvífnari valdshyggjumönnum í ráðherrastóli.

Eins og venjulega er það landbúnaðurinn, sem nýtur forréttindanna að fá ólöglega fyrirgreiðslu ráðherra. Í fyrra treysti Alþingi sér ekki til að verja meiru en tæpum fjórum milljörðum til uppbóta og niðurgreiðsla. Ráðherrar bættu svo tæpum milljarði ólöglega ofan á.

Er þingmenn átta sig á, að ólögleg útgjöld ráðherra eru engar “aukafjárveitingar”, eru þeir orðnir siðferðilega reiðubúnir að endurheimta fjárveitingavaldið.

Jónas Kristjánsson

DV